11.09.1917
Neðri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Björn Stefánsson:

Jeg skal ekki vera langorður, þótt háttv. frsm. (E. A.) búist við því. En jeg skal játa það, að hefði jeg verið frsm. og átt að taka nál. í gegn, þá hefði jeg ekki komist af með mjög stuttan tíma. Því að þótt það sje vel skrifað, þá er ekki margt í því, sem mætti ekki hrekja. En það er að eins eitt atriði í nál., sem jeg ber svo mikla virðingu fyrir, að jeg ætla að fara um það nokkrum orðum.

Hjer er sagt, að ef sama verð væri sett á vöruna í öllum kauptúnum landsins, þá yrði það til þess, að varan yrði á sumum stöðum dýrari en kaupmenn gætu selt hana með hóflegum hagnaði, svo að þeir mundu að ástæðulausu hækka verð á sinni vöru, en á öðrum stöðum yrði varan ódýrari en hjá kaupmönnum þar, og þeim yrði því gert ókleift að beita sjer fyrir vöruútvegun.

Þá vil jeg segja það, að ef eitthvað er ódýrara fyrir kaupmenn á einhverjum stað að viða að sjer vörur á annan hátt en frá stjórninni, þá er engin ástæða til, að landssjóður selji sína vöru á þeim stað á meðan, heldur auki þá forðann, sem hann á fyrirliggjandi, og geri sig birgan til lengri tíma. Jeg man ekki betur en að komið hafi til tals hjer í þinginu, að í landinu þyrfti að vera ársforði handa öllu landinu. Mjer er nær að halda, að mikið vanti á, að því takmarki sje náð. Það væri ef til vill hægt, ef kaupmenn gætu flutt að vörur, svo að landsstjórnin þyrfti ekki að hafa sínar á boðstólum, heldur gæti lagt þær fyrir.

Þá hefir líka verið talað um það, að skipin, sem flytja vörurnar frá Ameríku, sjeu svo stór, að ofdýrt sje að láta þau sigla með ströndum fram og skila vörum á mörgum höfnum. Þetta er að öllum líkindum rjett athugasemd. En þá ættu að vera til önnur skip, minni og ódýrari, sem hefðu þessa flutninga á höndum. Meðan aðflutningar til landsins voru minni en þeir eru nú var það venjulegt, að skip, sem komu frá Evrópu, komu fyrst upp til Austfjarða og fóru síðan norður um land til Reykjavíkur og skiluðu vörum á leiðinni. Jeg varð þó aldrei var við, að flutningur væri dýrari á þeim vörum, sem skipin höfðu meðferðis til Reykjavíkur, heldur en á aðra staði í kringum landið. Þó gátu þau oft tekið farm aftur í rúm það, sem tæmdist á höfnum á Norður- og Austurlandi, og fengið tvisvar farmgjald fyrir það rúm í skipinu, en ekki nema einu sinni fyrir það, sem þeir fluttu í vörur til Reykjavíkur frá útlöndum. Áttu Reykvíkingar þá nokkra kröfu til þess, að skipin flyttu jafnódýrt þær vörur, sem þau sigldu með norður og vestur fyrir land, eins og þær vörur, sem þau fluttu til Austfjarða, losuðu þar og tóku aðrar vörur í rúm þeirra fyrir nýja fragt, ef þeir nú hafa rjettlætiskröfu til að fá fyrir lægra flutningsgjald en aðrir landshlutar þær vörur, sem að landinu eru fluttar frá Vesturheimi nú. Austfirðingar kröfðust þess aldrei, enda býst jeg ekki við, að Reykvíkingar hefðu nokkurn tíma fallist á það. (Rödd af pöllunum: Vertu ekki með þessa bölvaða ekki sinn smámunasemi!).

Okkar kröfur nú eru alveg í samræmi við þessa gömlu venju. Þegar reiknaður er út flutningskostnaður á vörunni frá Ameríku, þá má reikna út um leið þann kostnað, sem leiðir af því að flytja vöruna kringum landið, og leggja allan flutningskostnaðinn á í einu.

Hæstv. atvinnumálaráðherra talaði um, að ómögulegt væri að reikna þetta út nákvæmlega fyrirfram. En mjer er spurn, hefir það þá verið gert, að reikna nákvæmlega út kostnaðinn við hvern farm jafnóðum? Jeg hefi ástæðu til að ætla, að svo hafi ekki verið. Frá því mun hafa verið skýrt, í skýrslu til bjargráðanefndar, að ágóði landsverslunarinnar hafi í maílok verið 300000 kr., en að nú muni sá ágóði að mestu upp etinn. Þetta bendir á, að ekki sje nákvæmlega gert upp jafnóðum. Það væri því ekki mikil afturför, þótt einhverju skakkaði við hverja einstaka ferð, sem jafnað væri á þá næstu. Jeg get því ekki fallist á, að hjer sje um neinn ómögulegleika að ræða. Þó skal jeg ekki halda þessu máli til hins ítrasta, heldur greiði jeg atkvæði með brtt., sem fer fram á þann milliveg, sem jeg álít að allir ættu að geta fallist á.