14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Magnús Kristjánsson:

Háttv. Nd. hefir haft þetta mál, um verð á landssjóðsvöru og fyrirkomulag á úthlutun þeirra og meðferð, síðan í þingbyrjun. Það kom fram snemma á þinginu till. á þgskj. 40, um það að breyta fyrirkomulaginu við umsjón og meðferð landssjóðsvöru úti um land. Þessi till. var feld og er því úr sögunni, en hins vegar ekkert á móti því að minnast hennar, vegna þess, að hún stendur í nánu sambandi við þá till., sem nú er hjer á ferðinni. Seinna á þinginu kom fram önnur till., á þgskj. 590, um verð á landssjóðsvöru. Sú till. var borin fram af allmörgum þm., og hefði því að líkindum mátt vænta þess, að hún fengi góðan.byr; henni var þá vísað tii bjargráðanefndar Nd., en álit hennar, á þgskj. 786, ber það með sjer, að hún hefir lagst eindregið á móti málinu. Eftir að þetta nefndarálit var komið fram, virðist svo, sem flm. málsins hafi þótt óvænlega á horfast um framgang þess, og hafi þeir þess vegna komið fram með miðlunartill. í málinu, á þgskj. 868. Það þarf ekki að útlista nánar efni málsins, því að jeg geri ráð fyrir, að háttv. þm. hafi kynt sjer, hvað í till. felst, svo að jeg sje ekki ástæðu til að fara inn á það. En við atkvgr. í Nd. vill svo undarlega til, að miðlunartill. á þgskj. 868 er feld, en till. á þgskj. 590 samþ., þrátt fyrir eindregin mótmæli bjargráðanefndar Nd. Þannig er þá málið komið til þessarar háttv. deildar.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast lítillega á rökfærslu bjargráðanefndar Nd. í þessu máli, að jafnvel þótt nefndin að sumu leyti geti fallist á hana, eru þó ýms atriði, sem eru þess eðlis, að jeg, fyrir mitt leyti, get ekki verið þeim samþykkur, og jeg hygg, að jeg megi segja, að nefndin í heild sinni geti ekki heldur aðhylst hana, en þrátt fyrir þessa röksemdafærslu í nefndarálitinu hefir nefndin þó að síðustu komist að niðurstöðu, sem kemur ekki algerlega í bága við till. þá, sem nefndin ber nú fram, á þgskj. 941, svo að að því leyti þýðir ekki að fara langt út í málið. Jeg hygg, að sú till. muni verða líkleg til samkomulags, og mætti telja vel farið, ef svo gæti orðið.

Það, sem jeg þó sjerstaklega hefi að athuga við nál., er þetta, að bjargráðanefnd Ed. telur frágangssök að aðhyllast till. nefndarinnar, af þeirri ástæðu, að ef sú aðferð yrði höfð að selja landssjóðsvörurnar við sama verði í öllum kauptúnum landsins, myndi það verða til þess að hækka verðlag á vörum hjer í Reykjavík og nærliggjandi stöðum. (Atvinnumálaráðh.: Og enda víðar) Það yrði óþolandi fyrir íbúa þessara hjeraða. Þetta er aðalviðbáran, og nefndin heldur því fram, að þetta geti orðið til þess, að kaupmenn, sem versla með samskonar vörur, fengju tækifæri til að setja upp vörur sínar, og þannig myndi það baka almenningi hjer í nærliggjandi hjeruðum stórtjón. Þessi ástæða getur því að eins verið á rökum bygð, að gengið sje út frá því, að kaupmenn versli sjer til skemtunar, en það er varla hægt að líta svo á alment. Það gefur að skilja, að landssjóður ætti að vera þeim mun betur settur en kaupmenn til að selja vöru sína lægra verði, þar sem hann gæti fengið betri innkaup við að gera stærri kaup, og annað hitt, að ekki er til ætlast, að landssjóður græði verulega á versluninni, en hitt er öllum skiljanlegt, að kaupmenn hljóta að gera ráð fyrir einhverjum verslunarhagnaði, til framfærslu sjer og sínu skylduliði; þess vegna geti varla komið til mála, að nokkur kaupmaður fengi tækifæri til að hækka verð á vöru sinni af þessum ástæðum, en væri gengið inn á þessa skoðun, að hún hefði við rök að styðjast, þá kæmi einmitt það upp, sem nefndin vill varast, því að þá gefur það að skilja, að með því að leggja upp vöruna hjer í Reykjavík með miklum tilkostnaði og flytja hana þaðan gæfi það kaupmönnum úti um landið tækifæri til þess að hækka verð á sinni vöru, og næði það til miklu fleiri manna, því að í Reykjavík og grend búa, að sögn bjargráðanefndar Nd., um 30000 manns, en í hinum hlutum landsins búa þá um 60000 manns. Væri þetta rjett, þá mundu miklu fleiri verða fyrir þessu tjóni með hinni aðferðinni. Það yrði að minsta kosti 60000 manna úti um land alt.

Nú er með þessari tillögu, sem liggur fyrir, á þgskj. 941, reynt að fara milliveg, þar eð skorað er á stjórnina að selja vörur með sama verði í kaupstöðum landsins og auk þess í einu eða tveimur aðalkauptúnum hverrar sýslu. Þessa brtt. ættu allir að geta sætt sig við, enda er hún í samræmi við niðurstöðu bjargráðanefndar Nd., að því leyti, að sú nefnd taldi það ekki frágangssök, að nokkur hluti varanna yrði settur upp í kaupstöðunum, og þær þá að sjálfsögðu seldar þar með sama verði og í Reykjavík. Bjargráðanefnd háttv. Ed. vill fara það lengra, að sama reglan gildi einnig um eitt eða tvö aðalkauptún hverrar sýslu. Vitanlega gildir þetta ekki þar, sem hafnleysur eru eða önnur helstu skilyrði vantar. Jeg held ekki, að jeg þurfi að eyða fleiri orðum að þessu máli, því að það er augljóst, að brtt. er til mikilla bóta, gerir hvorttveggja að spara landsmönnum mikið fje, og auk þess mundi þetta fyrirkomulag frekar tryggja ýms hjeruð landsins og sjá þeim betur borgið, ef ís eða aðrar hindranir hömluðu vöruflutningum á þeim tíma, sem þörfin er mest.

Jeg mun því ekki eyða fleiri orðum að sinni, nema mótmæli komi fram, og mun jeg þá reyna að sýna enn betur, að þetta fyrirkomulag sje hagkvæmt.