14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Magnús Kristjánsson:

Mig furðar á því, að hv. 1. þm. Rang. (E. P.) skuli halda þessari skoðun sinni svo eindregið fram, enda þótt jeg hafi sýnt fram á, að hættan, sem hann er að tala um, sje alls engin. Hann hefir algerlega bundið sig við álit bjargráðanefndar Nd. og alls ekki komið með neitt nýtt í málinu. Nú vildi jeg leyfa mjer að spyrja hann að, hvort nokkur ástæða sje til þess að halda, að vörur hækki í verði í Reykjavík, þó að skipin, sem koma frá Ameríku, komi t. d. fyrst við á Ísafirði og losi farminn, sem þangað á að fara, og haldi síðan til Reykjavíkur og leggi þar upp það, sem eftir er. Mjer er alls ekki unt að sjá, að það muni hleypa verðinu upp til muna, eða að það geti skapað nokkurn milliliðagróða. Kaupmenn geta alls ekki tekið neinn óhæfilegan hagnað af verslun sinni, nema gengið sje út frá því, að landssjóðsverslunin sje í einhverju sjerstöku óstandi, sem valdi því, að hún verði að selja vörur sínar dýrara en aðrir.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) sagði, að þetta fyrirkomulag hlyti að baka landssjóði útgjöld, en það getur naumast haft áhrif á vöruverðið í heild. Auk þess er augljóst, að kaupmenn, sem sæta sömu vörukaupum og landssjóður, hljóta að selja vöru sína hærra verði en landið ætti að geta gert.

Hv. þm. (E. P.) gat þess, að aðflutningarnir væru miklu erfiðari annarsstaðar á landinu en í Reykjavík. Þetta er í rauninni misskilningur, því að það er kunnugt, að víða á landinu hefir vöruskorturinn verið miklu minni en á Suðurlandi. Þegar skipin sigla beint til staðarins, sem vöruna á að nota, þá er alveg ástæðulaust, að verðið hækki nokkuð. Kunnugt er það og, að Eimskipafjelag Íslands hefir gefið fyrirheit um, að að minsta kosti skuli annað af skipum þess sigla til Norðurlandsins í haust. Þeir, sem fá vörur með því skipi, ættu því engan sjerstakan aukakostnað að þurfa að hafa. Hættan er því alstaðar sú sama, þó að hún verði útilokuð hjer. Óttinn er því ástæðulaus, hvernig sem á er litið. En hitt sjá allir, hversu óeðlilegt það er, að einn staður á landinu og nokkrar nærsveitir skuli sæta betri kjörum en allur þorri landsmanna. Það verður alls ekki varið. Hitt er miklu rjettlátara, sem brtt. fer fram á, þó að afleiðingin yrði sú, að landið græddi minna á versluninni eða yrði að leggja fram eitthvert lítilræði, til þess að koma jöfnuði á. Allir landsmenn eiga að njóta þeirra hlunninda jafnt, að verslunin er rekin af landinu.