14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Eggert Pálsson:

Þetta, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) mintist á síðast, að allir landsmenn ættu að bera jafnt af flutningskostnaðinum, hefði komið ljósast fram, ef landssjóður hefði sjálfur kostað flutninginn út um landið; án þess að sá kostnaður hefði verið lagður beint á vöruna sjálfa. Mjer skilst svo, sem landsmenn beri ekki allir jafnt, ef flutningskostnaðurinn er lagður á vöruverðið. Með því kemur einmitt fram misrjetti, því að sumir hlutar landsins bera þá kostnaðinn fyrir aðra. Jeg get viðurkent það, að mikið gæti unnist við það, að skip gengju

t. d. til Ísafjarðar frá Ameríku, og jafnvel beint til Akureyrar og Austurlandsins, ef því væri hægt að koma við. En það liggur alls ekkert í till. um þetta. Hún hefði þá átt að hljóða um það, að millilandaskipin skyldu koma við á fleiri höfnum en þau gera, en hún er einungis um það, að stjórnin skuli selja vörur með sama verði alstaðar. Stjórninni er jafnheimilt eftir sem áður að láta skipin ganga beint til Reykjavíkur og flytja svo vörurnar þaðan út um landið. Engin trygging er fyrir, að hún geri annað samkvæmt till. Hitt er annað mál, að jeg hefði má ske líka álitið slíka fyrirskipun talsvert varúðarverða, ef fram hefði komið. Því að oft getur staðið svo á, að þörfin fyrir vörur sje brýnni annarsstaðar en fyrirskipað yrði að senda þær. En slík till. hefði þó verið eðlilegri en sú, sem hjer liggur fyrir.

Eins og jeg hefi drepið á álít jeg, að þetta geti orðið mjög hættulegt spor, sem hjer er farið fram á að stíga, því að kaupmenn munu að sjálfsögðu notfæra sjer, hvað landsverslunarvaran verður dýr hjer í Reykjavík, og hækka að sama skapi sína vöru í verði. Nú er svo komið með ýmsa framkvæmdasama kaupmenn hjer í Reykjavík, að þeir fá ekki einungis vörur með skipum landsstjórnarinnar, heldur hafa þeir einnig sín eigin skip í förum, og mundi gróði slíkra manna verða óeðlilega mikill, er þeir gætu bundið sig við verðið, sem landið leggur á sínar vörur. Ef kaupmenn hjer hins vegar seldu ódýrara en landsstjórnin, þá færi eðlilega svo, að menn á Suðurlandi versluðu við þá eina, en aðrir landshlutar við landsstjórnina, og er þá ekki hægt að sjá, hver gróði þeim er í þeirri ráðstöfun, sem felst í till. þessum.