23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Frsm. fjárhagsnefndar (Magnús Guðmundsson):

Það eru brtt. á þgskj. 503, sem jeg ætla að minnast lauslega á, og þá fyrst 4. lið, við 2. gr., um að aukatekjur færist niður um 10 þús. kr. hvort árið. Það virðist ekki varlegt að áætla þann lið eins hátt og stjórnin hefir gert, því að það hefir dregið mikið úr kaupum og sölum, og því eru minni tekjur fyrir þinglestur á afsölum og slíkum skjölum. Sömuleiðis mun afgreiðslugjald skipa minka töluvert, sökum þess, hve skipaferðir eru teptar. Þó hefir nefndin búist við, að þetta mundi lagast eitthvað 1919, og því ekki fært meira niður.

Þá er 6. liður, við 2. gr., vitagjald, sömuleiðis fært niður um 15 þús. kr. á ári. Stjórnin hefir fært það niður úr því, sem áður var, og nefndin svo enn þá meir, af þeirri ástæðu, sem jeg nefndi áðan, hve lítið er um skipaferðir. En nú hefir stjórnin komið fram með frv., sem fer fram á hækkun á vitagjaldi, og í því trausti, að það verði samþykt, tekur nefndin till. aftur.

Þá er 8. liður, við 2. gr., sem nefndin vill lækka úr 220 þús. kr. niður í 150 þús. kr. Nefndinni þykir stjórnin áætla útflutningsgjald altof hátt, þar sem sýnt er, að mjög dregur úr því, vegna siglingateppu og rýrnunar á framleiðslu til sjávarins, nema því að eins, að frv. það yrði samþykt, sem nú er komið fram, um hækkun á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, en það er mjög skamt á veg komið, og ekki sjeð fyrir, hvort verður samþykt.

Áfengistoll vill nefndin hækka um 10 þús. kr. á ári, með hliðsjón af því, að líkur eru til, að frv. það verði samþ., sem nú liggur fyrir þinginu og fer fram á tollhækkun á áfengi og öli.

Tíunda lið, við 2. gr., tóbakstoll, vill nefndin sömuleiðis hækka um 75 þús. kr. á ári. Það byggir nefndin á því, að frv. það verði samþykt, sem fer fram á hækkun á tóbakstolli um ?. En fari svo, að frv. verði felt, þá þarf auðvitað að færa þetta niður.

Kaffi- og sykurtoll færir nefndin niður um 50 þús. kr. á ári. Henni þykir fullhátt farið hjá stjórninni, bæði sökum aðflutningsteppu og ekki síst af því, að menn munu spara mikið við sig sykur, eins og nú er ástatt.

Vörutoll (12. lið) færir nefndin enn fremur niður úr 350 þús. kr. niður í 300 þús. kr. á ári. Mun það síst oflangt farið, þótt aldrei nema flutningar verði komnir í samt lag 1919.

Pósttekjur vill nefndin færa niður um 10 þús. kr. á ári, vegna þeirra misbresta, sem eru á póstsambandi við útlönd, og ekki er útlit fyrir, að lagist fyrri hluta næsta árs.

Við 3.-4. gr. eru engar brtt.

Þá er brtt. við 5. gr., 1. lið, um að aftan við hann bætist svo hljóðandi aths.:

»Heimilt er prestinum í Breiðabólsstaðarprestakalli að verja árgjaldinu af því, kr. 142,38 hvort árið, til túnsljettunar á staðnum, þó með því skilyrði, að hann sljetti að minsta kosti 6 dagsláttur á þessum 2 árum«.

Þessi aths. hefir staðið í fjárlögunum í nokkur ár, og nefndinni þótti því ekki ástæða til að fella hana burt nú, því að svo framarlega sem vel eru sljettaðar 3 dagsláttur á ári, þá er það gróði fyrir landssjóð, en að það sje vel gert, er stjórnarinnar að sjá um.

Að endingu ætla jeg að drepa á 1. lið 3. gr., sem sje silfurbergsnámurnar í Helgustaðafjalli. Þann lið hefði nefndin helst viljað fella burt, af því að ekki er útlit fyrir, að náman gefi neinar tekjur á næstu árum. En af því að upphæðin er svo lág, 2000 kr., að litlu munar til eða frá, og verið getur, að ástandið breytist á síðara ári fjárhagstímabilsins, þótti ekki alveg næg ástæða til að nema hann burt. Stefna nefndarinnar hefir verið sú, að áætla heldur varlega, og þó er það mikið álitamál, hvort hún hefir farið nægilega langt í þessu efni. Jeg persónulega hefði viljað færa tekjurnar meira niður.