15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Magnús Kristjánsson:

Það er vegna þess, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir óskað eftir skýringu á orðalagi till. að jeg tek til máls. Eins og jeg tók fram áðan þá leit nefndin svo á, að með því að það væri fyrirfram ákveðið, að millilandaskipin legðu einhvern hluta vörunnar upp í kaupstöðum landsins, eins og stundum hefir átt sjer stað, þá yrði enginn verulegur kostnaður að því, og þess vegna mætti selja vöruna þar eins og í Reykjavík. Hins vegar þótti rjettara, að þeim skipum, sem sigla milli landa, væri ekki ætlað að leggja upp vörur í kauptúnum þeim, sem till. getur um, því að það gæti tafið ferðir þeirra um of. Þess vegna voru sett orðin »eftir pöntun« í tillöguna, og því að eins ber landsstjórninni að selja vöruna í þessum kauptúnum fyrir sama verð, að fyrir henni liggi pantanir, sem hún sjer fært að afgreiða, og ekki er ætlast til, að þar sjeu jafnan birgðir fyrirliggjandi, eins og í kaupstöðunum, en vörurnar yrðu fluttar til kauptúnanna, eins og henta þætti.