15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Sveinn Ólafsson:

Það var tilgangur flutningsmanna að tillögu þeirri, sem upphaflega var borin fram um þetta efni, að reyna að skapa jafnrjetti um land alt, ef unt væri. En, eins og tillagan er nú orðuð, er svo fjarri því, að um jafnrjetti verði að ræða, að hjer er einmitt komið á miklu misrjetti. Að eins lítill hluti landsmanna á að verða aðnjótandi þessara hlunninda, að fá vörurnar fluttar kauplaust. Eins og menn muna kom fram tillaga um sama efni á aukaþinginu í vetur, en hún fjekk þá ekki nægan byr, því að mönnum fanst ekki tiltækilegt að gera öllum jafnhátt undir höfði. En þar sem miðlunartillaga um það efni, sem

nú er hjer á ferðinni, var feld í háttv. Nd. fyrir nokkru, þá finst mjer ekki eðlilegt, að flutningsmenn hinnar fyrri tillögu eigi hægra með að sætta sig við þessa tillögu, eins og hún er nú orðin. Þetta, sem hjer er farið fram á að gera, er einungis gert fyrir kaupstaðina og stærri kauptún, en þau sýslufjelög, sem engin kauptún hafa, verða alveg út undan. Tillagan í þessum búningi nær ekki tilgangi flutningsmanna, en hlýtur að valda óánægju úti um land hjá þeim, sem afskiftir verða. Hún er í þessari mynd orðin að hálfgerðu skrípi, og tekur ekki fram ákvæðum laganna frá 1. febrúar næstl. Jeg get því ekki greitt henni atkvæði.