07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

184. mál, vegamál

Framsm. (Þorleifur Jónsson):

Meðal þeirra mála, sem legið hafa fyrir samgöngumálanefndinni, voru nokkur vegafrumvörp frá einstökum þingmönnum. Þau voru flest svo lítið undirbúin, að nefndin gat ekki mælt með, að þau gengju fram, eins og til var stofnað, að minsta kosti ekki á þessu þingi. En nefndinni virtist eigi heldur, að málaleitanir þessar væru svo vanhugsaðar eða ósanngjarnar, að vert væri að vísa þeim frá. Nefndinni kom því saman um að sjóða saman tillögu til þingsályktunar, sem nú er fram komin á þgskj. 809. Jeg þarf ekki að fara langt út í þetta mál, því að allítarleg greinargerð er með tillögunni. Ofurlítið ætla jeg samt að drepa á einstök atriði, þingmönnum til skýringar.

Þá sný jeg mjer að 1. lið tillögunnar. Þingmenn Múlasýslna fluttu frv. um það, að vegurinn frá Egilsstöðum um Hjaltastaðarþinghá út að Hjeraðsflóa skyldi tekinn í tölu flutningabrauta. Nefndin hafði það við þetta mál að athuga, að það hefði engan undirbúning fengið. Vegamálastjóri hafði ekki athugað þessa leið, en það verður að teljast fyrsta skilyrðið til þess, að þingið geti tekið nokkrar ákvarðanir til framkvæmda í vegalagningum, að þær sjeu áður athugaðar af vegamálastjóra og landsstjórn. Hitt er annað mál, að nefndin er á því, að öll sanngirni mæli með því, að vegur um þessar slóðir sje lagður á landssjóðskostnað. Hjerað það, sem hlut á að máli, er fjölment, en ilt yfirferðar, og vonir manna þar um slóðir stefna að því, að einhvern tíma í framtíðinni verði gerð höfn við Hjeraðsflóa. Þá yrði þessi braut aðalakbraut fyrir alt Fljótsdalshjerað. Þótt ómögulegt sje um það að segja, hvort þessar vonir muni nokkurn tíma rætast, þá er hitt þó líklegt, að við Lagarfljótsbrú rísi upp kauptún, og þá verður nauðsynlegt, að braut liggi þaðan út Hjeraðið. Hvernig sem á þetta er litið, þá er það eðlileg ósk, að akvegur sje lagður eftir Hjeraðinu endilöngu. Á Austurlandi er lítið um akvegi. Fagradalsbrautin og Hróarstunguvegurinn eru einu akfæru vegirnir á Austurlandi. Suðurlandsundirlendinu hefir mest fleygt fram vegna akbrautanna, sem þar hafa verið lagðar. Það er ekki ósanngjarnara, að landssjóður kosti fje til akvega á Austurlandi heldur en t. d. til Grímsnessbrautarinnar, þó að jeg viðurkenni, að hún sje nauðsynleg.

Þá er 2. liðurinn. Að ósk Hafnfirðinga hafði verið borin fram till. um það að leggja veg frá austurbrautinni við Rauðavatn í Mosfellssveit, um Vífilsstaði, á Hafnarfjarðarveginn. Jeg skal geta þess, að nefndin hafði til meðferðar nokkur skjöl um þetta mál, meðal annars ósk frá bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar um það, að leggja veginn beint frá Geithálsi til Hafnarfjarðar. Vegamálastjóri vill leggja veginn talsvert neðar, nálægt Bústöðum. Nefndin sá sjer ekki fært að gera upp á milli þessara leiða, og gat því ekki lagt til, að verkið yrði framkvæmt á næsta fjárhagstímabili. En hún telur sjálfsagt, að Hafnarfjörður fái betri vegarkost við austursveitirnar.

Nefndin leggur því til, að stjórnin láti athuga þetta mál hið bráðasta, og komi því helst til framkvæmda á næsta þingi.

3. liðurinn er um viðhald Fagradalsbrautar. Þetta viðhald er nú kostað af landssjóði að ?, en ? hvíla á sýslunum. Nú hefir komið fram ósk um það, að viðhaldinu verði ljett af sýslunum, vegna þess, að mikill hluti brautarinnar liggur í óbygðum. Auk þess er því haldið fram, að hún hafi ekki verið fullgerð þegar henni var skilað. Það er eðlilegt, að þessi krafa sje fram komin, þegar litið er til Suðurlandsbrautarinnar. Viðhald hennar austur fyrir Hellisheiði er alveg á kostnað landssjóðs, af þeirri ástæðu, að hún liggur yfir fjallgarð. En landssjóður kostar þó einnig viðhald þess hluta þeirrar brautar, sem liggur í bygð í Mosfellssveitinni. Það er því sanngjarnt, að landssjóður taki að sjer þann hluta Fagradalsbrautarinnar, sem liggur í óbygðum. Nefndin leggur því til, að stjórnin taki þetta til athugunar til næsta þings.

4. liður er almenns efnis. Á síðari árum hefir talsvert verið lagt úr landssjóði til sýsluvega og brúagerða, sem ekki eru á þjóðvegum. Það, sem vantar, er það, að í þeim efnum hefir ekki verið tekin föst stefna af vegamálastjóranum. Þingið rennir enn þá blint í sjóinn með það, hve miklu eigi að kosta til hvers vegarkafla, og í hvaða röð eigi að taka þá. Nú er t. d. eitthvað byrjað á undirbúningi undir nýja vegargerð í Borgarfirði. Á að gera brú á Hvítá hjá Ferjukoti og leggja akveg af Borgfirðingabraut yfir á þjóðveginn norður. Þar sem vegamálastjóri hefir gert till. um þetta verk, og álit hans hefir legið fyrir samgöngumálanefndinni og fjárveitinganefnd, þá hefir fjárveitinganefndin lagt til í áliti sínu, að landssjóður kostaði brúna að ?, en veginn að hálfu leyti. Þetta er af því, að málið hefir fengið góðan undirbúning, og einnig af hinu, að hjeraðsbúar hafa fyrirfram safnað allvænni upphæð til þessarar vegagerðar. Víðar þyrfti að athuga, hvern skerf landssjóður eigi að leggja til vega. Má t. d. nefna veginn um Vopnafjörð, norður Strandir og brýrnar á Hofsá og Selá, sem heyrst hafa nefndar hjer í deildinni. Víðar eru sýsluvegir, sem vert er að landssjóður leggi eitthvað til og þörf er á að athuga. Það er ekki nema eðlilegt, að þar, sem sýsluvegir eru miklir, þurfi sýslufjelögin á stoð landssjóðs að halda til að koma þeim í gott horf. Einkum þar, sem líka er mikið um hreppavegi, eða flutningabrautir, sem sýslufjelögin þurfa að halda við. En til þess, að aðstoð landssjóðs geti komið rjettlátlega niður, verður að koma á fastri reglu um það, hve nær eða í hvaða röð skuli unnið að hverjum vegi fyrir sig, og gera áætlun um, hvað það muni kosta.

Jeg þarf svo ekki að fara fleirum orðum um þetta mál. Jeg vona, að till. fái þolanlegar undirtektir og gangi óhindrað til síðari umr.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að viðaukatill. á þgskj. 824, sem útbýtt hefir verið hjer á fundinum. Nefndinni hefir ekki gefist tækifæri til að bera sig saman um þessa till., svo að jeg get ekki sagt neitt um, hverja afstöðu hún mundi taka til hennar. Mig minnir, að hún sje gamall kunningi. Man ekki betur en að hún lægi fyrir þinginu 1915, og að það vildi ekki sinna henni. (S. S.: Það sannar ekkert). Nei, það sannar ekkert. En jeg lít svo á, að bæði vegamálastjóri og landsstjórn sjeu því mótfallin að ljetta þessu viðhaldi af sýslunum. Þess ber að gæta, að brautum þessum er vel í sveit komið, og eru afarmikið notaðar af hjeraðsbúum, ekki að eins að sumrinu, heldur og einnig á veturna, með því að snjóþyngsli eru sjaldan til trafala á þessum brautum. Það er því mikið til þess vinnandi að hafa vegi í þessum hjeruðum. Að vísu hefir verið undan því kvartað, að bílar auki mikið viðhaldskostnaðinn, með því að brjóta niður trjebrýr og ræsi. Nú hefir þingið hlaupið undir bagga með því að veita fje til að gera steinsteypubrýr eða járnbrýr, í stað trjebrúa, og að steypa ræsin. Það ljettir strax viðhaldið að þurfa ekki að kosta til brúa og ræsa. Jeg skal ekkert segja um afstöðu nefndarinnar til þessarar till. En mjer, fyrir mitt leyti, finst öðru máli að gegna um þennan veg en Fagradalsbrautina, sem liggur að mestu leyti í óbygðum. Það er auðvitað þungur baggi fyrir sýslufjelögin, sem mikið vegaviðhald þurfa að kosta. En það verður líka að líta á gagnið, sem þau hafa af brautinni.