07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

184. mál, vegamál

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Það er leiðinlegt, ef hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir komist í æsing út af orðum mínum. Mjer fanst jeg fara svo hógværum orðum um till., að jeg gæfi ekki tilefni til slíks. Jeg gat þess, að samgöngumálanefnd hefði ekki tekið afstöðu til till. á þgskj. 824, og það, sem jeg því segði, væri á eigin reikning.

Háttv. þm. (S. S.) sagði, að það væri grátlegt, ef ekki yrði fallist á till.; það getur vel verið, en þá hefði þurft að taka upp í hana viðhald allra flutningabrauta, til þess að fult samræmi hefði komist á.

Háttv. þm. (S. S.) huggar sig við það, að nýi vegamálastjórinn sje hlyntur því, að vegaviðhaldinu sje ljett af hjeraðinu. Það getur vel verið, að hann sje því hlyntur; ekkert hefir samt frá honum komið til nefndarinnar um það, en það er víst, að hingað til hefir vegamálastjórnin lagst á móti þessu og talið það ekki ranglátt að skylda hjeruðin til þessa viðhalds á vegunum. Og jeg get ekki sjeð, að þetta sje að minsta kosti nokkru ranglátara gagnvart þeim hjeruðum, sem brtt. á þgskj. 824. nefnir, en öðrum hjeruðum, sem slíkt viðhald hvílir á, þótt raunar Árnesingar verði að halda við fleiri vegum en aðrir.

Að öðru leyti skal jeg ekki mæla á móti till.; það má vel vera, að samgöngumálanefndin verði svo sanngjörn, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) kallar, að hún vilji aðhyllast till., þrátt fyrir það, þótt hingað til hafi ekki samskonar tilmæli haft stuðning undanfarinna þinga.