20.07.1917
Efri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

83. mál, útvegun á nauðsynjavörum

Frsm. (Karl Einarsson):

Eins og tillagan á þgskj. 109 ber með sjer er hún komin frá bjargráðanefnd þeirri, sem háttv. deild skipaði fyrir nokkru.

Nefndin hefir leyft sjer að koma svo fljótt fram með tillögu þessa af því, að hún áleit það ekki mega dragast lengur að koma með hana. Nauðsynin á þessu er auðsæ. Að vísu hefði nefndinni verið það ljúfara, hefði hún getað athugað betur, hvað stjórnin hefir gert í þessu efni. En nefndina hefir vantað nægar skýrslur um það og ekki unnist tími til þess hjá stjórninni að gefa skýrslur þessar. Nefndin hefir því orðið að byggja á því ástandi, sem er í landinu. Það er vitanlegt, að skortur er á ýmsum af þeim nauðsynjavörum, sem nefndar eru í tillögunni, t. d. á kolum og steinolíu, og birgðir af öðrum nauðsynjavörum eru ekki heldur miklar.

Án þess að leggja neinn dóm á stjórnina að svo komnu um það, hvort hún hefði getað betur gert eða ekki, skal það tekið fram, að miklir erfiðleikar hafa verið á vegi hennar síðan hún tók við völdum.

Það virðist í fljótu bragði mæla á móti því, að tillagan kemur fram, að stjórnin hefir haft fulla heimild til þess að láta framkvæma alt það, er í tillögunni stendur, og mætti ætla, að hún hefði gert alt, sem í hennar valdi stóð. En henni hefir áreiðanlega ekki tekist að birgja. landið að þessum vörum, og hefir þetta valdið miklu tjóni fyrir einstaka landshluta og landið í heild sinni.

Það vakir því fyrir nefndinni, að stjórnin sjái, að Alþingi ætlast til, að landið líði ekki neinn skort, og landsmenn geti að svo miklu leyti, sem unt er, haldið áfram atvinnuvegum sínum.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða um málið að sinni, en áskil mjer rjett til að skýra betur frá því, hvað fyrir nefndinni vakir við síðari umr. þessa máls, ef tillagan mætir mótmælum, og þá taka fram þær aðferðir, sem nefndin telur færar í þessu máli.

Það er von mín, að háttv. deild taki máli þessu vel og vísi því til 2. umræðu.