20.07.1917
Efri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2245 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

83. mál, útvegun á nauðsynjavörum

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Eins og háttv. deild mun kunnugt er það aðaláhersluatriði stjórnarinnar að birgja landið upp að nauðsynlegustu neysluvörum og þeim vörum, sem nauðsynlegastar eru framleiðslu. Það er ætlast til þess eftir tillögunni, sem er til umræðu, að þetta verði framkvæmt í sumar. En jeg finn ástæðu til að taka það fram, að eftir því, sem horfurnar eru nú, er tæplega hægt að draga að sjer ársforða nú í sumar. Háttv. frsm. (K. E.) mintist á skýrslur frá landsstjórninni. Jeg vil geta þess, að nú hafa þær verið sendar til hæstv. forseta sameinaðs þings.

Eins og áður er sagt er það tilgangur stjórnarinnar að draga sem mestan forða að landinu. Hvað henni verður ágengt í því efni er mjög erfitt að segja um. En það er mjög gott fyrir stjórnina að hafa skýran vilja þingsins að styðjast við, og því tel jeg það heppilegt, að till. er komin fram.