23.08.1917
Efri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2251 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg vil með nokkrum orðum skýra frá ástæðum þeim, er liggja til þess, að landbúnaðarnefndin ber fram till. þessa.

Eins og öllum háttv. þm. hlýtur kunnugt að vera þá byrjaði sláttur venju fremur seint í sumar; var það grasleysi að kenna. Þegar svo loks sláttur byrjaði, voru tún yfirleitt illa sprottin, og sífeld votviðri gengu í flestum hjeruðum landsins, svo að allar líkur eru til þess, að taðan sje lítil, skemd og hrakin víða. En nú hefir tíðarfarið breyst, og eru komnir þurkar og hagstæð heyskapartíð, engi víða orðin dável sprottin, og hey hefir náðst inn.

Þegar töðufallið hefir orðið svona lítið og heyannir gengið stirt, þá skiftir það miklu máli, ef hægt væri að lengja sláttinn nokkuð, og eigi hvað síst er þess er gætt, að skortur hefir verið á fólki til heyvinnu.

Það eru líka ýmsar ástæður, er liggja til þess, að líkindi eru til, að djarfar verði sett á vetur í haust en oft áður. Heyin lítil, en svo hefir líka engin hrossasala átt sjer stað út úr landinu, og tvísýna mikil á því, hvernig kjötmarkaður verður í haust — alt útlit þó fyrir, að hann verði til muna lakari en undanfarin ár.

Jeg veit, að háttv. deild er það ljóst, að af þessu hvorutveggja, engri hrossasölu og verri og minni afsetningu á sláturfje, leiðir það, að nú er, meir en oft áður, brýn nauðsyn mikilla heyja, og þá einnig það að fresta fjallgöngum og rjettum í haust um 1 viku, er, eins og nú stendur á, nauðsynleg bjargráð, bein ófriðarráðstöfun, betri heldur en öll lög og reglur um fóðurbætiskaup.

Það er ekki lítið, er heyja má um land alt á einni viku. Það munar um þann fóðurauka. Og auk þess, er jeg hefi nú tekið fram, þá má geta þess, og það er ekki lítið atriði, að vel má það verða, að um það leyti, sem sláturtíð á að byrja í haust, ef rjettum verður ekki

frestað, vanti bæði salt og tunnur, og það er bæði vinnutap og skaði á fjenu að smala því af afrjettum löngu fyr en sláturtíð byrjar.

Jeg hefi, síðan nefndin kom með till., hreyft þessu við ýmsa bændur, er jeg hefi hitt og talað við í síma, og hafa þeir allir verið á einu máli um það að fýsa þess, að till. næði fram að ganga.

Jeg vil geta þess, að það getur leikið nokkur vafi á um það, hvort hægt er að ná tilgangi till. með þeirri leið, sem hjer er farin. Jeg hefi átt tal við hæstv. forsætisráðherra um það, og skildist mjer svo, sem hann teldi ekkert vera því sjerstaklega til fyrirstöðu, að stjórnin gæti annast um framkvæmdir málsins.

Jeg leyfi mjer svo að vænta þess, að háttv. deild samþ. till.