23.08.1917
Efri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg gæti fallið frá orðinu, eftir að hæstv. atvinnumálaráðherra hefir tekið til máls; jeg ætlaði mjer að eins að leyfa mjer að beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort hann telji stjórnina hafa lagaheimild til þess að gera ráðstafanir þær, sem þingsályktunartillaga þessi skorar á landsstjórnina að gera.

Fjallgöngur og rjettir eru ákveðnar í fjallskilareglugerðum, sem settar eru af sýslunefndum, eftir sjerstakri lagaheimild, og staðfestar af stjórnarráðinu. Þessum reglugerðum verður ekki breytt eða þær numdar úr gildi á annan hátt en þær eru til orðnar. Sveitarstjórnarlögin heimila stjórninni ekki að breyta þeim, og jeg get ekki heldur fundið neina heimild fyrir hana til þess í lögunum frá 1. febr. þ. á, um heimild fyrir landsstjórnina til ýmsra ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum.

Ef tilgangur þingsályktunartillögunnar ætti að nást, yrði að mínu áliti að setja sjerstök lög eða heimildarlög um frestun fjallgangna og rjetta.

Jeg sje, að hæstv. atvinnumálaráðh. er mjer samdóma um lagahlið ráðstafana þeirra, sem ætlast er til að gerðar verði, og vil jeg styðja till. hans um, að málið verði tekið út af dagskrá og tekið til athugunar á ný í landbúnaðarnefnd.