24.08.1917
Efri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Landbúnaðarnefndin hefir komið fram með brtt. á þgskj. 607 við þingsályktunartill. á þgskj. 526. Þessi brtt. er fram komin að tilhlutun hæstv. atvinnumálaráðherra, og er með henni ætlast til, að orðin í þingsályktuninni »að gera nú þegar ráðstafanir til þess« falli burt, en í þeirra stað komi: að fá því nú þegar framgengt. Jeg fæ ekki annað sjeð en að þetta orðalag geti komið í sama stað niður, en hæstv. atvinnumálaráðherra telur það kost, ef svo er orðað.

Jeg held, að jeg hafi gert svo ítarlega grein fyrir þessari þingsályktunartillögu í gær, að jeg sje ekki ástæðu til þess að gera það frekar, sjerstaklega þegar þess er gætt, að ekki var annað að heyra en að háttv. deild væri málinu fremur hlynt. Vona jeg nú, að hún sjái ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja tillöguna.