15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

191. mál, milliþinganefnd til að íhuga fossamál landsins

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg þarf ekki að flytja langa tölu til þess að skýra þetta mál. Það hefir allmikið verið um það rætt í báðum deildum, og ætti að nægja að skírskota til álits Sogsfossanefndarinnar í Ed. og nefndarálits í Nd. um fossafrv., er þar kom fram.

Nefndirnar eru sammála um, að það sje skylda þingsins að taka fossamálið til rækilegrar íhugunar og gera alt, sem í þess valdi stendur, til þess, að þjóðin verði viðbúin að hagnýta fossaflið, þegar fje er fyrir höndum.

Hingað til hafa vötnin verið látin ráða rás sinni, hvort heldur til böls eða bóta, og þeim hefir jafnvel fremur verið hjálpað til þess að eyðileggja landið en notfæra gróðurafl.

En nú eru að verða straumhvörf í þessu efni. Það sjáum vjer ljósast á frv. þeim, sem samþykt hafa verið hjer í þinginu um áveitu á Flóann og fyrirhleðslu í Þverá. Það er auðsætt af þessu, að þinginu er orðið það alvörumál að beisla vötnin og temja.

Og þetta er oss öllum fagnaðarefni. En vjer verðum samt að gæta þess, að það stendur ekki alveg á sama, hver beislar þau og temur. Ef vjer höldum ekki sjálfir í tauminn, getur af því orðið sá flaumur, er sópar þjóðrjettindum vorum og þjóðerni út í Ginnungagap erlends auðvalds, þangað, sem það á aldrei afturkvæmt úr.

Við þessu verðum vjer fyrst og fremst að sjá. Og jeg þykist vita, að sá Íslendingur sje ekki til, er vilji láta þjóðina selja sálu sína, hversu mikil fríðindi sem í boði eru.

Aðaltillaga meiri hluta nefndarinnar, er ritaði fyrfrvaralaust undir nál., er að nefndin skuli skipuð þremur þingmönnum, en þeir ráða sjer nauðsynlega aðstoðarmenn. Með þessu ákvæði virtist nefndinni, að fylsta þingábyrgð væri lögð nefndinni á herðar. En nefndarmenn gátu samt ekki orðið sammála um þetta. Minni hlutinn lagði það til, að nefndin skyldi skipuð 5 mönnum, og skyldu tveir þeirra vera utanþingsmenn. Þetta virtist meiri hlutanum að mundi verða til að draga úr þingábyrgð nefndarinnar og auka kostnaðinn. Nefndin kemst auðvitað ekki hjá því að fá verkfræðing sjer til aðstoðar. Og á það var lögð áhersla í nefndinni, að enginn hjerlendur verkfræðingur yrði valinn til þessa starfa. Þetta stafar alls ekki af vantrausti nefndarinnar á innlendum verkfræðingum. Það eru margir ósjerplægnir menn í þeirri stjett, sem hafa unnið ráðvandlega fyrir landið og staðið vel í stöðu sinni. En þeir geta fæstir verið óvilhallir í þessu máli, því að þeir eru annaðhvort bundnir fossafjelögunum eða verða háðir þeim meira eða minna í framtíðinni.

Að öðru leyti get jeg vísað til fundabókar nefndarinnar, er þingmenn eiga kost á að kynna sjer, og mun stjórninni sendur útdráttur úr henni.

Jeg lýk máli mínu með þeirri ósk til háttv. Alþingis, að það samþykki tillöguna.