15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

191. mál, milliþinganefnd til að íhuga fossamál landsins

Eggert Pálsson:

Jeg geri ráð fyrir, að háttv. þm. hafi veitt athygli nál. á þgskj. 948, þó að það samkvæmt þingsköpunum liggi ekki hjer frammi til umræðu. Þetta nefndarálit er samið af nefnd þeirri, sem Ed. skipaði til þess að athuga leyfisbrjef fossafjelagsins Íslands um að fá að nota fossafl í Soginu.

Undir þetta nefndarálit hefi jeg skrifað með fyrirvara.

Háttv. framsm. meiri hlutans (M. T.) hefir getið þess að nokkru leyti, í hverju fyrirvari minn er fólginn. Jeg gat sem sje ekki felt mig við það, að nefndin væri skipuð þrem þingmönnum, hverjum úr sínum þingflokki. Mjer virtist, að með því fengist ekki nægileg trygging fyrir, að málið yrði rannsakað eins gaumgæfilega og jeg tel nauðsynlegt. Úr því að ekki virtist líklegt, að þingið væri fært til að ráða fram úr Sogsfossamálinu, virðist mjer miður sennilegt, að þessir þrír menn gætu ráðið vel fram úr öllum þessum 4 atriðum, sem tillagan getur um og eru svo miklu djúptækari og erfiðari viðfangs en frv. eitt, sem gefið hefir tilefni til þess, að tillagan er fram komin.

Jeg álít, að ef ráða á máli þessu hyggilega til lykta, þurfi stærri svið til þess að velja mennina heldur en kostur er á með því að kjósa menn úr þingflokkunum einum saman.

Jeg hefði getað sætt mig við þriggja manna nefnd, ef stjórnin hefði mátt velja í hana mennina, án þess að binda sig við þingflokkana. En úr því að því var fastlega haldið fram, að einn maður úr hverjum flokki skildi skipa nefndina, áleit jeg miklu tryggilegra, að stjórnin veldi tvo utanþingsmenn að auki, enda varð þetta að samkomulagi milli mín og hinna nefndarmanna.

Það liggur í hlutarins eðli, að fyrirvari minn miðar alls ekki til þess, eins og málinu nú er komið, að till. verði ekki samþykt, heldur þvert á móti. En þótt jeg viðurkenni, að nál. sje lipurlega orðað, þá er það hins vegar augljóst, að það getur ekki verið í fullu samræmi við skoðanir mínar á þessu máli, sbr. að svo er að orði kveðið í nál., að Sogsfossamálið hefði ekki getað fengið nægan undirbúning á þessu þingi. Að vísu má þetta til sanns vegar færa, ef litið er á dagsetning nefndarálitsins, 14. sept. En jeg álít hins vegar, að nefndin, sem kosin var í Sogsfossamálið, hefði getað ráðið því máli með góðum vilja til lykta. Þar var um svo nauðalítið brot af vatnsafli landsins að ræða, að eigi gat skaðað, þótt fjelaginu, með ákveðnum skilyrðum, hefði verið gefin heimild til að starfrækja það, og jeg er sannfærður um, að ef nefndin og þingið hefði ráðið fram úr því máli á þessu þingi, mundi það hafa orðið til blessunar fyrir þetta land.

Jeg skal ekki endurtaka það, sem sagt hefir verið áður um þetta mál. En jeg vildi að eins drepa á það, að ef þessu máli hefði verið hrundið í gott horf á þessu þingi — auðvitað með gaumgæfilegri rannsókn þingdeildanna beggja — hefði mátt bæta að miklum mun úr ýmsum erfiðleikum, sem margir eiga nú við að búa.

Vjer vitum allir, að þm. hafa heimilað stjórninni framkvæmdir á ýmsum störfum til atvinnubóta. En jeg hygg, að þingmenn hafi oft greitt slíkum heimildum atkvæði sitt, án þess að þeim væri ljóst, hverskonar framkvæmdir stjórnin gæti látið inna af hendi til atvinnubóta. Jeg hefi ekki heyrt minst á neitt slíkt fyrirtæki, enda engar áætlanir, mjer vitanlega, til um þess háttar framkvæmdir.

En ef þingið hefði undið bráðan bug að Sogsfossamálinu, þá hefði þar blasað við atvinnubót; því að eitt meðal annars, sem þingið hefði getað gert fjelaginu að skilyrði fyrir, að það fengi leyfið, var það, að það ljeti þegar í stað byrja á járnbrautarlagningu.

Þá hefi jeg gert grein fyrir því, að jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara. Eins og málinu nú er komið stendur næst að gæta þess, að það verði ekki eyðilagt í framtíðinni, heldur sje lagt alt kapp á, að það geti orðið til blessunar fyrir landið, svo að fossarnir verði oss eigi að eins til ánægju á ókomnum tímum, heldur og einnig til gagns.

Að svo mæltu vænti jeg, að till. fái góðan byr.