15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

191. mál, milliþinganefnd til að íhuga fossamál landsins

Eggert Pálsson:

Jeg skal ekki fara í stælur út af þessu máli. Jeg vildi að eins svara þeirri staðhæfingu háttv. frsm. meiri hl. (M. T.) að jeg hefði komist í mótsögn við sjálfan mig, með því að halda því fram, að Sogsfossamálið hefði getað náð fram að ganga á þessu þingi, en sje þó með því að skipa milliþinganefnd nú, til þess að íhuga það.

Jeg vil benda háttv. þm. (M. T.) á það, að hjer er alls ekki um neina mótsögn að ræða, vegna þess, að till. gengur ekki í þá átt að athuga Sogsfossamálið eitt. Till. tilgreinir 4 liði, sem á að athuga. Og þegar gert er ráð fyrir, að milliþinganefnd taki jafnmarga og djúptæka liði til meðferðar, þá er eðlilega ekki hægt að afgreiða málið á einu þingi af einni nefnd. Það er mikill munur á því, hvort athuga skal 1. lið eða 4., alla jafnmikilsverða.

Þá hjelt háttv. frsm. (M. T.) því fram, að þótt frv. hefði verið samþykt, þá hefði ekki verið hægt að byrja á neinum verklegum framkvæmdum fyr en að ófriðnum loknum. En þess ber að gæta, að í frv. eru mörg atriði, sem hefði mátt breyta og lagfæra í hendi sjer, ef það hefði verið vilji þingsins, að byrjað yrði þegar í stað á verkinu; þá hefði verið innan handar að setja það sem skilyrði. Jeg er ekki í vafa um, að þinginu hefði verið kleift að fá slíkum breytingum framgengt og ýmsum fleirum, er það hefði nauðsynlegar talið, svo framarlega sem því hefði verið hugleikið að fá málinu framgengt.

Jeg skal svo ekki þrátta um þetta mál frekar; það er algerlega þýðingarlaust úr því sem komið er.