15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2289 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

191. mál, milliþinganefnd til að íhuga fossamál landsins

Bjarni Jónsson:

Það er ekki nein stór ræða, sem jeg ætla mjer að halda. Mjer þótti leiðinlegt að heyra ræðu hv. sessunautar míns (S. St.), því að hann sýndist vilja lasta verk nefndarinnar.

Jeg skal leyfa mjer að benda háttv. þm. (S. St.) á það, að ef þingið er fært um að velja sjer stjórn, þá er það líka fært um að benda á menn til þessa verks. (S. St.: Ef þeir eru til í þinginu). Hv. þm. (S. St.) man kann ske ekki eftir því að hann sje á þingi, minnir kann ske að hann sje heima hjá sjer? Annars held jeg að ekki sje meira mannval utan þings en innan, því að þingið er og á að vera spegill þjóðarinnar. Eitt kemur og til í þessu máli; það er hverjum menn trúa best til þessa starfa. Það er ekki svo mikið undir því komið, að það sjeu fossafræðingar, efnafræðingar eða verkfræðingar, sem með málið fara, því að það getur hver þingmaður sagt sjer sjálfur, að nefndin getur fengið sjer mann á hverju svæði sem vera skal, til að gefa sjer upplýsingar, er hún þykist þurfa um vjelar, kostnað og alt þess háttar, og ekki þarf að ákveða, fossaverkfræðinga til þess að kjósa hverja stefnu þjóðin taki í hverju máli, er snertir framtíðina. Hjer er það á rjettum stað, að flokkar þingsins, sem stjórnina velja, neyti rjettar síns og segi hverjum þeir trúa.

Svo er líka gott til þess að vita, að á þinginu hafa fram komið tvær alveg gagnstæðar skoðanir, og verður því að gæta þess, að í nefndina komi menn af báðum skoðunum, svo að önnur þeirra verði ekki fyrir borð borin, svo að þegar nefndin kemur með einhliða dóm, þá verða menn jafnóupplýstir og áður. Það má ekki minna heimta en að stefnur þær, sem fram eru komnar, eigi báðar sína talsmenn þar.

Jeg tel stefnu nefndarinnar í málinu góða; álit nefndarinnar og tillögur eru komnar fram eftir samningi milli stríðandi skoðana í málinu, og hvað þýðir þá annað fyrir þingið en að fallast á till. nefndarinnar í málinu og vera ekki neitt að gefa yfirlýsingu um það, því að hún hefir að mínu áliti fundið það eina rjetta, sem hægt er, og einmitt það er mjer mest trygging, að þingið þarf ekki að láta alveg afskiftalaust, hverjir menn verða í nefndinni. Tryggingin er fyrir öllu, að ekki sje rasað fyrir ráð fram eða hlaupið eftir till. þeirra manna, sem geta sagt: »svona og svona er það«, án þess að vita nokkurn skapaðan hlut. Þegar sjerfræðingar eru settir í málið, veit enginn neitt og allir verða að trúa þeim, án þess að vita nokkuð um, hvað rjett er eða rangt. En þegar fleiri eru, þá eru menn ekki alveg í höndunum á einhverri sjerfræðingastjett. Hygg jeg þá að málinu sje vel komið.