06.07.1917
Efri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

29. mál, skipun bjargráðanefndar

Flm. (Sigurdur Eggerz):

Jeg vil að eins gera þá stuttu athugasemd, að menn þurfa ekki annað en að líta á, hvernig þetta hefir gengið fyrir sig. Ef þingið 1915 hefði gengið vel fram í því að birgja landið að vörum, þá hefðum við staðið alt öðruvísi að vígi nú.

Þetta verður háttv. þm. Ak. (M. K.) að játa að sje rjett.

Og það er óforsvaranlegt, að útgerðarmenn, sem það var hægt, skuli ekki hafa sjeð fyrir því, að þeir væru birgir af kolum og salti og öðru, er að útgerð lýtur. Það er öldungis óforsvaranlegt. Mildari orð er ekki hægt að hafa um það.

Og þessi mótbára, er kom fram á þinginu 1915, að ekki væri hægt að geyma vöruforða hjer á landi vegna húsleysis, er einungis hlægileg. Þeirri mótbáru trúir engin sála.

Að fara út í þær persónulegu hnútur, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) beindi að mjer, sje jeg enga ástæðu til.