06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2423)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal ekki fara neitt út í þau mótmæli, sem fram hafa komið gegn því að hætta við sölu þjóðjarða, því að það efni liggur hjer alls ekki fyrir. Frv. fer að eins fram á það að fresta þjóðjarðasölunni vegna verðfalls peninga, sem orðið hefir, eins og hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) einnig játar að sje. Jeg get ekki sagt um það hjer, hvort ráðuneytið sje á móti þjóðjarðasölu yfirleitt eða ekki; jeg er ekki viss um, að allir ráðherrarnir sjeu þar á sama máli. En um hitt erum vjer allir sammála, að það sje eigi rjettur búskapur fyrir landssjóð að selja jarðirnar nú. En þótt allir væru á þeirri skoðun, að þjóðjarðasalan sje ekki heppileg, þá finst mjer það ósanngjarnt að heimta af stjórninni, að hún leggi fram ákveðnar tillögur um algerða breyting á ábúðarskilyrðunum. Það mál þarf mikinn undirbúning.

Út af orðum hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) skal jeg taka það fram, að það er ekki rjett, að nokkrum manni, sem loforð hefir fyrir sölu jarðar, hafi verið neitað um söluna, ef hann hefir notað loforðið á þeim tíma, sem það var bundið við. Hitt hefir komið fyrir, að t. d. loforð, sem gefin hafa verið fyrir nokkrum árum, en ekki hafa verið notuð fyr en löngu síðar, hafa ekki verið tekin til greina. Og alveg ómögulegt er það, að 1. afborgun af jarðarverði hafi verið rekin aftur, vegna þess, að það væri ekki hægt; afborgun byrjar ekki fyr en jörðin er að fullu seld. Jeg skal ekki segja um þjóðjarðir, því að mjer er ekki fyllilega kunnugt um þær, en um kirkjujarðir get jeg fullyrt þetta. Ef maður hefir fengið loforð fyrir jörð 1912, tel jeg ólíklegt, að hann hafi nú rjett til kaupanna; þar á móti ef honum er lofuð jörð frá fardögum í ár, hefir hann skýlausan rjett. Jeg held, að einhver misskilningur hljóti að vera hjá hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) á þessu.

Hitt, að við virðing jarða hafi verið höfð hliðsjón af verðfalli peninga, skal jeg ekki um segja, það er tekur til þjóðjarða, en um kirkjujarðir veit jeg, að það hefir ekki verið gert, enda er þess ekki von, með því að mestmegnis er miðað við afgjaldið af jörðunum. Ef taka hefði átt fult tillit til verðfallsins, þá hefði þurft að hækka, ef til vill þó ekki um ½, með því að ekki er hægt að vita um peningaverð í framtíðinni, en greiðslan fyrir þjóðjarðir fer fram á mörgum árum, eins og menn vita.