06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Þórarinn Jónsson:

Hæstv. forsætisráðh. vildi bera brigður á, að það væri rjett, að stjórnin hefði kipt að sjer hendinni með sölu þjóðjarða eftir að hún hefði verið búin að leyfa hana.

Jeg vil ekki nefna nöfn, en get þó sagt það, að þetta var jörð í Húnavatnssýslu. Mjer skildist það á hæstv. forsætisráðh., að þetta hefði einnig komið fyrir áður, í tíð fráfarinnar stjórnar. Bóndinn, sem er búsettur í Húnavatnssýslu, sótti um kaup á ábúðarjörð sinni frá fardögum í fyrravor, en fjekk ekki leyfið fyr en í septembermánuði. Hann hjelt því, að hann fengi jörðina ekki keypta fyr en í fardögum næst á eftir og sendi því fyrstu afborgun í maí, til þess að vera viss um, að hún kæmi nógu snemma. Stjórnin sendi honum þá peningana aftur og neitaði honum um kaup á jörðinni. Þetta er auðvitað sannanlegt, því að bóndinn hefir sjálfur sýnt mjer brjefið, og jeg ber engar brigður á, að hann hafi að öllu leyti skýrt rjett frá.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um verðfall peninga, vil jeg taka eitt fram, og það er það, að við sölu jarðar er tekið tillit til fleira við matið en afgjalds, því að verðið er einnig ákveðið eftir því, hvernig jarðir í sömu sveit seljast, og ætti það að veita nægilegt aðhald, svo að þjóðjarðir seljist ekki oflágu verði. Svo er annað, sem jeg held að sje á allra vitorði, að umboðsmenn kirkju- og þjóðjarða gjöra sjer far um að láta ekki selja jarðirnar oflágt, og tekur stjórnin vitanlega tillit til þess. Jeg segi þetta ekki til þess að gefa í skyn, að umboðsmenn setji sig móti þjóðjarðasölunni, vegna þess, að hún rýrir tekjur þeirra, og bið því hv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) að skilja ekki orð mín svo, enda þótt sjöttungurinn af jarðarafgjöldunum sýnist ekki óálitleg beita á menn, sem ekki væru sjerlega fastir fyrir í þeim efnum. Það er því tvens konar aðhald, sem matsmenn og stjórn hafa í þessu tilliti.

Hv. 1. þm. S.-M. talaði um, að ef kirkju- og þjóðjarðir yrðu seldar, gæti verið hætta á því, að margar jarðir söfnuðust á eina hönd, og það er tvímælalaust aðalástæðan gegn þjóðjarðasölunni. En þetta held jeg að mætti fyrirbyggja, t. d. með háum sköttum á þeim jörðum, sem ekki eru í sjálfsábúð, eða banna mönnum með lögum að eiga fleiri jarðir en þeir byggja. Eg get aldrei gengið inn á, að leiguliðar haldi jörðum sínum í eins góðri rækt og sjálfseignarbændur. Hvöt manna til að halda betur við sinni eigin eign en annara eign verður aldrei slitin burt. Jeg þekki fjölda mörg dæmi þess, að leiguliðar landssjóðs hafa sótt um kaup á ábúðarjörðum sínum, af því að þeir hafa ekki viljað ráðast í stór fyrirtæki á þeim eða byggja upp á þeim, nema þær væru þeirra eigin eign, og eftir að þeir hafa fengið þær keyptar hefir alveg skift í tvö horn með búskaparlag á jörðunum. Það má auðvitað segja, að menn geti reist sjer hurðarás um öxl, ef menn ráðast í ofstór fyrirtæki á jörðunum, en verkið lifir þó, og þótt þeir verði að selja jarðirnar aftur, af því að þeir hafa lagt ofmikið í kostnað, eru þó jarðabæturnar orðnar þjóðarhagur. (Sv. Ó.: En „spekulantirnir“ ?) Já, ef hægt er að fyrirbyggja, að jarðirnar lendi í höndum „spekulanta“, er aðalmótbáran gegn sölunni fallin. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) tók áðan fram, að nokkrir menn hafi áður hætt við að kaupa, af því að þeim þótti verðið ofhátt, en síðan verðfallið varð, hafi þeir viljað kaupa. Þessu hefir þegar verið svarað af hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og bent á, að til þess geta legið önnur drög en verðfallið sjálft, t. d. að ábúandinn hafi staðið betur að vígi vegna verðhækkunar á landsafurðum og hann því haft betri kraft til að kaupa.

Eg fæ ekki sjeð, að nokkur ástæða sje til að ætla, að jarðir seljist eða sjeu virtar nú lægra en sanngjarnt er.

Það hefir komið til mála að láta þetta frv. ganga til landbúnaðarnefndar. Það lítur út fyrir, að það ætli að verða töluvert þras hjer í hv. deild út af því, í hvaða nefnd hvert mál á að fara, og finst mjer það lítill kostur fastanefnda. Jeg get ekki betur sjeð en að þetta sje landbúnaðarmál og að það eigi því heima í landbúnaðarnefnd, og mun því eindregið greiða atkvæði með, að það gangi þangað.