28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Framsm. (Eggert Pálsson):

Jeg býst ekki við, að mörgum orðum þurfi að fara um útgjaldaliðina á upphaflega frv., sem hæstv. stjórn lagði fyrir þingið. Jeg geri ráð fyrir, að háttv. þingdm. hafi kynt sjer það, ásamt athugasemdum þeim, er því fylgdu. Þeim liðum þarf því ekki að fylgja löng greinargerð frá nefndarinnar hendi.

Sama er að segja um þá liði, sem bætt var inn í frv. í háttv. Nd. Háttv. fjárveitinganefnd þar hefir gert grein fyrir þeim, á þgskj. 296, og býst jeg við því, að háttv. þingdm. sje kunnugt það, sem þar stendur.

Það, sem skýra þarf, er því að eins breytingar þær, sem fjárveitinganefnd Ed. hefir gert á frv., og er að nokkru gerð grein fyrir þeim á þgskj. 617.

Ef vjer athugum brtt. fjárveitinganefndar á þgskj. 617, sjáum vjer, að hækkanirnar nema samtals 8500 kr., ef reiknuð er með viðbótin til Brynjólfs Einarssonar, sem ætlast er til að greidd verði af símafje. En lækkanirnar, sem eru tveir liðir, 5000 kr. til Þórhalls Daníelssonar, í stað 7000 kr., og 22921 kr. 50 au. í dýrtíðaruppbót til pósta, í stað 23865 kr. 98 au., nema samtals 2944 kr. 50 au. Niðurstaðan verður þá sú, að hinar eiginlegu hækkanir nefndarinnar nema samtals 5555 kr. 50 au.

Aðalhækkunin, sem nefndin fer fram á, er til sjúkraskýla. Fjárveitinganefnd Nd. hafði að vísu hækkað styrkinn til þeirra fyrir árin 1916 og 1917. En er fjárveitinganefnd Ed. athugaði málið, komst hún að þeirri niðurstöðu, að þessi fjárveiting væri ekki nægilega mikil. Fyrir nefndinni lágu sárar kvartanir frá stjórnarnefndum ýmsra sjúkraskýla utan af landi, t. d. frá sýslumanninum og sýslunefndinni í Strandasýslu, stjórnarnefnd sjúkraskýlisins Gudmanns Minde á Akureyri, bæjarfógeta Seyðisfjarðar, sýslumanninum í Skagafjarðarsýslu, hjeraðslækninum í Vopnafirði og sýslumanni og sýslunefnd í Barðastrandarsýslu, og þar var svo aumlega borið sig, að farið var fram á 1500 kr. hækkun fyrir árið 1916 og 2500 kr. fyrir árið 1917; en nefndinni datt auðvitað ekki í hug að miða hækkunina við þessa kröfu, enda mundi fjeð, sem hún leggur til að veitt verði til þessara stofnana, skamt hafa hrokkið með þeim mælikvarða. En þetta sýnir samt, hversu hagur sjúkraskýlanna er víða bágborinn. Nefndin kannast við, að ekki veitti af í raun og veru að tvöfalda tillagið, til þess að afstýra vandræðum og koma í veg fyrir, að taka þyrfti til þess örþrifaráðs að loka sjúkraskýlunum.

Þá hefir nefndin bætt einum lið við 4. gr., sem sje 600 kr, til handavinnunáms á Akureyri. Fyrir þessari veitingu er gerð glögg grein í nefndarálitinu, og þarf því litlu við hana að bæta. En svo stendur á þessari fjárveitingu, að námsskeiðið, sem um er að ræða, hefir verið haldið, en forstöðukonan getur ekki fengið þann 600 kr. styrk, sem hún hefir haft að undanförnu af tillagi til unglingaskóla. Endurskoðunarmenn landsreikninganna þvertaka fyrir, að styrkurinn sje greiddur af fje því, er unglingaskólunum er ætlað. En ef ekki verður greitt úr þessu, mundi forstöðukonan tapa þessum 600 kr., því að þegar hún lagði út í að halda námsskeið síðastliðinn vetur, hefir hún treyst á styrkinn, sem hún hefir haft að undanförnu.

Þá er þriðja hækkunin, 3000 kr. til bókasafns Austurlands, til þess að kaupa bækur Ásgeirs heitins Torfasonar.

Eins og háttv. þm. er kunnugt af skrá, er lögð hefir verið fram á lestrarsal, er þetta töluvert mikið safn og þar að auki mjög vel umgengið. Bandið á bókunum er ágætt, mörgum hverjum, enda er svo til ætlast, að þær verði ekki ljeðar út af safninu, heldur að eins hafðar til afnota á lestrarsal. Kaupin mega heita góð, en eftir er að vita, hvort háttv. deild vill láta bókasafn Austurlands verða aðnjótandi safnsins, fremur en önnur söfn.

Fjórða hækkunin er 700 kr. til Brynjólfs Einarssonar. Þessi maður slasaðist í þjónustu símans í mars í fyrra. Hann var uppi í símastaur við símalagningu, en símþráður slóst á hann, svo að hann fjell niður úr staurnum og varð hart leikinn. Áður hafði hann verið veill, en sá lasleiki ágerðist við byltuna, og hefir hann ekki mátt vinna síðan, að áliti lækna. Þegar hann sótti um styrkinn 28. júní í vor, hafði hann fengið 300 kr. styrk af landssjóðsfje, en nú sækir hann um frekari styrk. Og þegar hann sækir um þennan styrk, er heilsufar hans þannig, að útlit er fyrir, að hann verði aldrei heill heilsu aftur, og líkur til, að sjúkdómurinn dragi hann til dauða. Fjárveitinganefnd Nd. hefir lagt til, að honum yrðu veittar 1000 kr., en fjárveitinganefnd Ed. fanst rjett að miða styrkinn við slysatryggingarfrumvarpið, sem verið hefir til umræðu hjer í deildinni; því að ef þetta frv. hefði verið orðið að lögum, þegar slysið vildi til, mundi hann hafa fengið þessa fjárhæð.

Þá fer nefndin fram á 2000 kr. lækkun á styrk til Þórhalls kaupmanns Daníelssonar í Hornafirði. 24. nóvember 1916 hefir kaupmaður þessi sótt um 10 þús. kr. styrk til stjórnarinnar, fyrir að halda uppi samgöngum við Hornafjörð, og telst honum svo til, að samgöngurnar hafi kostað 21 þús. kr. Stjórninni hefir fundist sanngjarnt, að Þórhalli yrði veitt einhver uppbót á þessum halla. Hann segir sjálfur, að áður en stríðið hófst hafi vöruflutningar til verslunarinnar kostað sig að jafnaði 7 þús. kr. á ári, en nú hafi þessi kostnaður numið 21 þús. kr. Ef honum yrðu veittar 10 þús. kr., eins og hann fer fram á, mundu honum vöruflutningarnir ekki miklu dýrari nú en á venjulegum tímum, 11 þús. kr., í stað 7 þúsunda kr. En sá munur gæti varla náð nokkurri átt, því að allir flutningar fyrir kaupmenn hafa gert meira en tvöfaldast.

Nefndin áleit því sæmilegt að veita helming þeirrar fjárhæðar, sem kaupmaðurinn fer fram á, eða 5000 kr. Og sú skoðun kom meira að segja fram í nefndinni, eins og sjá má af þgskj. 662, að Þórhallur ætti ekki tilkall til neinnar uppbótar, með því að hann hefði lagt flutningskostnaðinn á vörurnar, eins og aðrir kaupmenn. Annars býst jeg við, að meðnefndarm. minn (K. E.) geri grein fyrir brtt. sinni, og ef hann sýnir fram á, að rjett sje að fella þennan lið burt, finst mjer það mæla heldur með því, að rjett sje að lækka hann, eins og farið er fram á á þgskj. 617.

Þá er sú brtt. frá háttv. þm. Snæf. (H. St.), á þgskj. 633, að styrkurinn til Breiðafjarðarbátsins sje hækkaður úr 4000 kr. upp í 5000 kr. Þessi háttv. þm. mun hafa fært rök fyrir því í samgöngumálanefndinni, að nauðsyn væri á að hækka styrkinn upp í 6000 kr., en nú fer hann að eins fram á 1000 kr. hækkun. Fjárveitinganefndin hefir athugað þessa styrkbeiðni og verið einróma um nauðsynina á hækkun styrksins.