20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Framsögum. meiri hl. (Jón Jónsson):

Jeg get verið stuttorður um þetta mál; það hefir verið rætt svo mikið áður, að það er að bera í bakkafullan lækinn, að fara nú að halda hrókaræður um það á ný. Nefndin hefir gert grein fyrir áliti sínu á þgskj. 89. Þótt ekki sje gert ráð fyrir öðru í frv. stjórnarinnar en frestun á framkvæmd þessara laga, þá leit nefndin svo á, að tilgangurinn hlyti að vera sá, að hætta með öllu að selja þjóð- og kirkjujarðir, eða afnema lögin með öllu. Nefndin getur ekki fallist á þetta. Það má auðvitað segja, að rjett væri að fresta framkvæmd laganna, þar til matsnefndirnar hafa lokið störfum sínum. Það væri ástæða, sem afsakaði tregðu stjórnarinnar til að selja. En ekki virðist stjórnin leggja áherslu á þetta, enda er nú matið langt komið.

Því hefir verið haldið fram, að einstakir menn geti eignast margar jarðir. Nefndin játar, að það sje ekki heppilegt; þess vegna hefir henni komið til hugar að flytja breyting á lögum um forkaupsrjett leiguliða, er hindri það.

Aðalatriðið í þessu máli er það, að jörðum landsins sje sómi sýndur, og sá tilgangur næst langbest með því að selja jarðirnar. Það sýnir reynslan. Þó að skýrslur vanti um þetta, og margt sje skrifað af hálfu andstæðinga þjóðjarðasölunnar því til sönnunar, að leiguliðar sitji eins vel jarðir og sjálfseignarbændur, þá er óhætt að fullyrða, að bæði er yfirleitt betri búskapur á sjálfsábúðarjörðum og meiri rækt lögð við jarðirnar.