20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Sveinn Ólafsson:

Margt af því, sem jeg ætlaði mjer að segja, hefir nú verið tekið fram af hæstv. atvinnumálaráðh. og hv. 1. þm. Árn. (S. S.).

Álit meiri hlutans í nefndinni hefir verið mjer ráðgáta. Jeg efast sem sje um, að taka beri álitið í fullri alvöru. Á frumvarp stjórnarinnar má líta eins og fyrirspurn til þingsins um það, hvort því þyki ráðlegt að halda áfram þjóðjarðasölu eftir sama mælikvarða og áður, meðan verðfall peninga varir. Þessu er alls ekki svarað með nefndarálitinu og eigi að því vikið. Nefndin snýr sjer að annari spurningu, sem ekki liggur fyrir í frumvarpinu, sem sje þeirri, hvort nema skuli úr gildi þjóðjarðasölulögin. Eðlilega verða þá svör nefndarinnar út í hött, og hygg jeg, að þetta stafi af því, að hún hafi eigi athugað aðferð þá, sem fylgt er við mat jarðanna.

Söluverð jarðanna er venjulega reiknað eftir meðalafgjaldi síðastliðinna 10 ára, sem þá er talið 4% af sannvirði eða söluverði jarðarinnar. Þannig verður jörð sú metin til sölu 1000 kr., sem að meðaltali hafa verið goldnar af 40 kr. árlega síðustu 10 ár, og eins þótt nokkur hluti þessa árgjalds sje greiddur með jarðabótavinnu, eins og nú tíðkast á þjóðjörðum, jarðabótum, sem vitanlega koma ábúendum til tekna, en ekki landssjóði.

Sje það nú rjett, eins og margir halda fram, að peningar hafi fallið um 75% þá er það líka rjett, að þeir, sem kaupa jarðirnar eftir slíku mati, miðuðu við verð peninganna eða afgjöldin fyrir stríðið, fá þær fyrir 25% eða ¼ af sannvirði.

Um þetta átti nefndin að segja álit sitt, en jeg finn ekkert í nefndarálitinu um það.

Þá skal jeg víkja að nokkrum atriðum í nefndarálitinu. Þar stendur, að þjóðarviljinn sje vafalaust sá, að jarðirnar sjeu seldar samkvæmt gildandi lögum. Jeg tel þetta samt töluvert vafasamt, og get bent á áskoranir um að koma á erfðafestu í stað sölu í 4 þingmálafundargerðum úr Suður-Múlasýslu. Þessar áskoranir voru þó ekki fram komnar að mínum hvötum, og á engum þessara funda mætti jeg. Jeg hygg, að almenningsálitinu sje víða líkt farið.

Önnur fullyrðing nefndarinnar er sú, að því verði ekki mótmælt með rökum, að eignarrjetturinn yfir jörðinni knýi fram alt það besta, sem í manninum býr. Fullyrðing þessi er dálítið brosleg. Mundi sá rjettur í höndum ljensdrottna miðaldanna hafa knúið fram alla bestu eiginleika þeirra? Til þess bendir ekki meðferð sú, sem þeir höfðu á hjáleigubændunum, sem þjakaðir voru eins og þrælar.

Það er enn ein fullyrðing nefndarinnar, að löggjafarvaldið hafi ekkert gert til að bæta kjör leiguliðanna. Töluverð rjettarbót var þó að ábúðarlögunum frá 1884. Og ekki er það lítils virði fyrir leiguliðana að mega inna drjúgan hluta eftirgjaldsins af hendi með jarðabótum, en með þeim skilmálum eru flestar þjóðjarðir bygðar.

Þá kem jeg að þessari setningu: „Eftirlitið með landssjóðsjörðum hefir verið og er mjög bágborið.“ Það var nánast þessi setning, sem gaf mjer tilefni til aðfinslu, því að hjer er einnig sveigt að mjer. Fróðlegt væri að vita, að hverju leyti eftirlitið er bágborið. Eru afgjöldin eigi heimt inn, eða er vanrækt að vinna tilskildar jarðabækur? Orðalagið er svo rúmgott að margt getur komist fyrir í því. (Þór. J.: Það rúmar alla umboðsmenn). Í næstu sveit við hv. frsm. get jeg bent á leiguliða, sem hafa stórbætt jarðir sínar. Af jörðum skal jeg að eins nefna Brekku, Víðivelli og Hrafnkelsstaði í Fljótsdal. Sama má segja um marga í suðursýslunni, en nöfn þýðir lítið að nefna. Eftirlitið með þessum jarðabótum hefir verið auðvelt; ábúendur hafa af eigin hvötum unnið þær, oftast miklu meira en til var skilið, og fundið, að þeim var beinn hagur að því.

Nefndin segist vera í vafa um, hvort smábýlabúskapur í sveit myndi koma að gagni hjer á landi. Hugboð hennar um þetta er engin sönnun, en mörg eru smábýlin til og farnast vel. Nú er það vitanlegt, að fjölda manns skortir jarðnæði, og alment er kvartað um, að fólkið þyrpist í kaupstaði, jarðræktinni til niðurdreps. Jeg sje ekki, að annað ráð sje hentara til að útvega þessu fólki býli en að skifta eignum, sem landssjóður hefir umráð yfir. Ilt væri að kippa burt þessum helsta möguleika til býlafjölgunar.

Nú er á leiðinni frv. um erfðafestuábúð á þjóðjörðum, sem mjer finst stefna í rjetta átt. Aðferð sú hefir annarsstaðar vel gefist. Mjer finst ekki við eigandi að snúast gegn stjórnarfrumvarpinu á þann veg, sem hv. nefnd hefir gert;. það er eigi annað en fyrirspurn til þingsins um það, hvort halda skuli áfram sölunni eftir matsmælikvarðanum forna, meðan verðfall peninganna varir. Jeg fyrir mitt leyti er ekki í vafa um, hverju jeg á að svara þeirri spurningu.