28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Karl Einarsson:

Eins og brtt. á þgskj. 662 ber með sjer hefi jeg ekki getað orðið nefndinni að öllu leyti samfara. Okkur hefir ekki komið saman um styrkveitinguna til Þórhalls Daníelssonar.

Jeg fæ ekki sjeð, að venjulegt sje að greiða fje úr landssjóði á þennan hátt. Jeg skal að vísu játa, að erfitt er um flutninga til Hornafjarðar; en þá lægi næst, að stjórnin hefði heitið þeim manni fje, sem vildi annast samgöngur við Hornafjörð, og væri þá auðvitað sjálfsagt að samþykkja kostnaðinn, því að þá vissu menn, að hverju þeir ættu að ganga, enda væri kostnaðurinn þá ekki lagður á vörurnar. En það hefir Þórhallur auðvitað gert.

Jeg sje þess vegna ekki, að nokkur sanngirni mæli með því að veita þessum manni styrk, enda álít jeg slíkt skaðlegt fordæmi.