01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Þórarinn Jónsson:

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) byrjaði ræðu sína á því, að fresta þyrfti framkvæmd þessara laga, sökum þess, að stjórnin þyrfti að hugsa um málið. Jeg fæ nú ekki sjeð, um hvað hún ætlar að hugsa. Hún getur ekki hugsað um annað en það að hætta með öllu að selja þjóðjarðirnar; því að það er áreiðanlega meining stjórnarinnar; það sjest bæði af gerðum og ræðum hennar. En um hvað þarf hún að hugsa. Hún hefir nú töglin og hagldirnar og þarf ekki að selja jarðirnar nema við því verði, er hún, að fengnum bestu upplýsingum, álítur hæfilega sett, eftir því ástandi sem nú er. Og er því alveg fallin sú ástæða.

Þá mintist hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) á verðfall peninganna og sagði, að á því bygðist krafan um frestunina. Þetta hefir nú verið þvælt hjer í deildinni áður og ljóslega sýnt fram á, að þetta er ekki rjettmæt krafa, því að ekki er til neins að deila um það, að við matið, sem nú er að fara fram, er einmitt tekið tillit til verðfallsins á peningum og jarðirnar metnar eftir því. En hitt má taka fram, að menn úti um land eru ekki orðnir svo lærðir í braskara og svindlara geypi, að þeir hagi sjer neitt líkt því, sem menn gera hjer undir handarjaðri stjórnarinnar eða hjer í kringum Reykjavík. Þarf því ekki að hugsa, að mat á jörðum úti um land, nú við jarðmatið, hækki neitt líkt því sem menn hjer búast við, sem ekki hafa nema öfgar við að styðjast. Í sambandi við þetta get jeg ekki annað en sagt frá einu dæmi upp á það, hver óhlutvendni er viðhöfð frá þeirra hendi, sem nú berjast á móti þjóðjarðasölunni. Því hefir verið dreift út hjer í þinginu, að eignarjörð mín, sem áður var kirkjujörð, hafi verið seld mjer samkvæmt virðingu fyrir 4000 kr., en nú sje hún virt fyrir 11,000 kr. En hins hefir gleymst að geta, að síðan jeg keypti jörðina hefi jeg látið gera þar íbúðarhús úr steini og auk þess peningshús að nýju, sömuleiðis úr steini. Auðvitað voru nokkur hús á jörðinni þegar jeg keypti hana, en þau voru sára lítils virði. En sannleikurinn í þessu máli er sá, að jörðin sjálf er nú ekki hærra metin en þegar jeg keypti hana, því að byggingarnar eru yfir 7000 kr. virði, og svona mun vera víðar um sögusagnir þær, sem ganga um þjóðjarðasöluna.

Þá mintist hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) á það, að óheppilegt væri, að margar jarðir söfnuðust á einstakra manna hendur, eða þá að útlendingar keyptu þær hópum saman. Það er alveg rjett, að þetta hvorttveggja er óheppilegt, en það verður ekki bætt úr því með því að hætta nú að selja, þegar flestar jarðirnar eru þegar seldar. Það verður að koma í veg fyrir þetta með öðrum ráðum, og sýnist ekki vera stórannmörkum bundið, eins og áður hefir verið bent á. En annars þykir mjer það ekki sitja sem best á stjórninni að koma fram með þessa ástæðu, þegar hún hefir látið mæla út lóðir handa 15 Norðmönnum til þess að reka síldveiði norður í Strandasýslu. Þar sem hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) talaði um, að menn ættu að geta orðið eins ánægðir í leiguábúð, þá vil eg spyrja: Hví hefir landsstjórnin ekki gert leiguliðana ánægða, þar sem hún þykist stöðugt vera að vinna að þessu? Hví biðja menn um kaup á jörðunum?

Satt að segja skildi jeg ekki það, sem hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) var að tala um, að menn væru óþolnir í hallæri. Ef hann vill taka það sem röksemdir á móti þjóðjarðasölunni, þá verður hann fyrst að sanna, að landsetar landssjóðs sjeu þolnari en þeir, sem sitja á sjálfs sín eign. En það hygg jeg, að engin fjármálaráðherra geti, svo að honum er ekkert niðrað með því. Í þessu sambandi mintist hann líka á það, að nú væri prjedikað fyrir þjóðinni að hugsa ekki um neitt nema munn og maga. Skyldi hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) ekki þykja fækka ábúendum á þessum loflegu landssjóðsjörðum, ef menn hættu alment að hugsa um þá hluti. Því að það hefir ekki enn verið fram borið sem ástæða móti þjóðjarðasölu, að þjóðjarðalandsetar þyrftu ekkert að eta.

Það var ekki heldur rjett, sem hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) sagði, að menn keyptu jarðir sínar sjer um megn. Það gera menn ekki af þeirri einföldu ástæðu, að borgunarskilmálarnir eru svo góðir, að menn vita tæplega af annari greiðslu en þeirri fyrstu. Árleg afborgun og vextir er ekki meira en vanalegt eftirgjald.

Jeg skal svo ljúka máli mínu með því að taka það enn einu sinni fram, að menn gera sjer miklu meir far um að sitja jarðir sínar vel, ef þeir hafa sjálfir eignarhald á þeim. Þjóðjarðasalan hefir því ómótmælanlega lyft undir ræktun landsins, og hefti stjórnin nú söluna, þá fremur hún hið gífurlegasta ranglæti gagnvart þeim, sem sótt hafa um kaup á jörðum sínum, saman borið við aðra, sem þegar hafa fengið þær.