01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi gera stuttlega grein fyrir því, hvers vegna jeg muni greiða atkvæði með þessu frv.

Það hefir verið mikið um það talað og altof mikið úr því gert, að jarðir í sjálfsábúð sjeu betur setnar en leigujarðir. (Þór. J.: Öðru nær!) Það er ekki öðru nær. Þeir þurfa ekki að láta svo, sem þeir viti ekki, að leiguliðarnir rækta ábýli sín ekki síður en hinir. Hinu neita jeg ekki, að ríkari hvöt sje hjá þeim til að bæta jarðirnar, sem sitja á sjálfs sín eign. En úr þessu má bæta, þótt jarðirnar sjeu ekki seldar. Jeg get bent á eina einfalda aðferð. Hún er sú, að leiguliðar skuli allir hafa æfiábúð og auk þess eiga það, sem þeir hafa bætt jarðir sínar. Jeg hygg, að þetta yrði leiguliðunum hagkvæmara, því að þeir gætu þá búið stærra búi, þegar þeir þyrftu ekki að setja lánstraust sitt í að kaupa jörð sína. Með þessu móti yrðu leiguliðar betur settir en hinir, svo að ranglæti það, sem hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), var að tala um, er ekki til. Til þess nú að gefa stjórninni frest til að koma þessu fyrirkomulagi á, vil jeg samþykkja þetta frv. Það er líka mjög heppilegt að nota þennan hallæristíma til þessa, því að nú hafa peningastofnanirnar nóg annað við peningana að gera en að lána þá til jarðakaupa. Þegar svo stjórninni hefir unnist tími til að koma fram með tillögur sínar, þá vil jeg fella þjóðjarðasölulögin úr gildi og búa til önnur lög um það, að landið kaupi aftur þær jarðir, sem það hefir nú selt.

Íslenska ríkið ætti að kaupa landið alt, svo að það væri þess eigin eign. Með því móti væri hægt að fá mönnum jarðnæði með góðum kjörum fyrir þá, og landssjóður þyrfti þá minna að lifa á vasaþjófnaði þeim, sem „tollar“ nefnast. Þá væri hægt að leggja á landið sjálft. Þingið myndi þá losna við öll tollafrv., sem því er verst plága að ár frá ári.

Þá kem jeg að tryggingunni fyrir því, að landið haldist í sjálfsábúð. En það er mest um vert. Hvaða trygging er nú fyrir því, að jarðir, sem seldar eru, haldist í sjálfsábúð? Engin! Kaupendur jarðanna og ábúendur geta selt, á hvaða degi sem er, jarðir sínar útlendum gróðafjelögum, sem ná vildu í fossa eða önnur rjettindi, sem fylgja jörðunum, (Þorl. J.: Fossar eru undan skildir) svo sem námurjettindi. (Þorl. J.: Öll námurjettindi eru líka undan skilin). Það geta engu að síður verið námur í landinu, sem ókunnugt er um, þegar selt er (Þorl. J.: Þær eru líka undan skildar). Það er ekki til neins að koma með slíkar fullyrðingar. Dómurinn fellur ekki eftir þeim. Eins og sagt var er það ekki trygt, að menn selji ekki öðrum ábýli sín, og því jafnótrygt, að þau haldist í sjálfsábúð. Það þyrfti að tryggja, að landið sje óseljanleg eign, eins konar óðal, bundið við ættina með lögum. Hins vegar væri þetta ekki trygging fyrir, að afkomendur þess, sem kaupir, verði dugandi menn. En ef landssjóður leigði jarðirnar með kjörum, sem jeg nefndi fyr, þá væri meiri trygging fyrir, að landið hjeldist í góðri rækt, því að hægt væri að reka dáðleysingjana af jörðunum. Á síðari tímum hefir margur látið ginna frá sjer eignir sínar í hendur gróðafjelaga, útlendra að formi og efni, eða að minsta kosti að efninu til. Það ætti og að vera góð trygging fyrir, að slíkt gæti ekki átt sjer stað, ef þingið hefði umráð jarðanna. Það væri ekki sennilegt, að löggjafarsamkoma, sem svo er skipuð sem þessi, ljeti ginna af sjer hafnarstæði eða annað, sem þýðingu hefir fyrir land og lýð. En þetta er algengt um einstakra manna eignir.

Jeg held því, að rjett sje að fresta nú framkvæmd á lögunum um þjóðjarðasölu. Stjórn og þing gæti þá hugsað sig vel um til næsta þings, en þá yrði málið tekið upp til reglulegrar meðferðar. Stjórninni ætti að gera að skyldu að rannsaka málið og leggja tillögur um það fyrir þing, sem að líkindum verður á næsta sumri. Þá gæti þingið gert eitthvað, sem gagn væri í, ekki að eins til að bæta rækt jarðanna, heldur og til að fyrirbyggja, að við verðum þrælar útlendinga í okkar eigin landi. Heyrt hefi jeg, að enn sjeu á sveimi ráð, sem miðað gætu til þess, þótt ekki viti jeg nánar um það. Það yrði skuldaríkt fyrir sögunnar dómi, ef menn gerðu þjóð sína að landlausum lýð. Þungur væri sá reikningur, ef við seldum öll þau rjettindi, er að gagni mættu verða. Full ástæða er því til að ráða þessu máli ekki til lykta nú þegar, heldur gefa sjer umhugsunartíma til næsta þings.