01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2447)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Sveinn Ólafsson:

Við fyrri hluta þessarar umræðu fjekk jeg ekki tækifæri til að svara fyrir mig.

Jeg hafði fundið að því, að meiri hluti landbúnaðarnefndar taldi það eina ástæðuna með þjóðjarðasölunni, að eftirlit með þjóðjörðum væri yfirleitt mjög bágborið, eins og hún komst að orði. Út af þessari aðfinslu minni fór hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) að segja dæmisögur af því, hve afarljelegt eftirlitið væri, og lýsti því svo, að þjóðjarðir væru niður níddar og án húsabóta. Jeg efast ekki um, að sögurnar, sem hann sagði, sjeu sannar, þar sem hann þekkir til. En getsakirnar í nefndarálitinu áttu þar fyrir ekki við. Miklu væri sæmra að kæra yfir þeirri meðferð jarðanna, sem hann nefndi, en að snara því fram á þessum stað, eins og almennri ásökun. Sje slíkt rjett, þá er að ræða um svik í opinberu starfi og það vítaverð, en hitt er fortakslaust rangt, að kasta því fram sem getsök, sem hittir þá, sem ekki eiga hlut að máli. Hv. 1. þm Húnv. (Þór. J.) tók það þá einnig fram, að eftir því sem hann vissi til væri það aðalstarf umboðsmanna að heimta inn afgjöld jarðanna og hirða sinn hluta af þeim. Jeg get ekki fundið út úr þessum orðum hans annað en kala til einhvers umboðsmanns, sem hann vill kasta að hnútum. En jeg fortek, að þetta sje mjer ætlað, því að altaf hefir fallið vel á með okkur síðan við urðum sessunautar. Hitt getur vel satt verið — og átti þó eigi við að nefna hjer — að einhver einstakur umboðsmaður hafi ekkert annað að gera en hirða laun sín og krefja afgjöldin, t. d. þar sem örfáar jarðir eru eftir óseldar, óseljanlegar, vel setnar og í fastri ábúð.

Það kom skýrt fram við fyrri hluta umræðunnar, og enn kom það fram nú í umr., að sumum finst það rangsleitni gagnvart þeim, sem þegar hafa beðið um að fá jarðir sínar keyptar, ef hætt væri nú að selja þjóðjarðir, og að slíkt myndi átakanleg vonbrigði. Á þetta get jeg ekki fallist, og síst, að slík vonbrigði nálgist nokkuð þau vonbrigði, sem aðrir bíða á þessum árum. Útgerðarmenn hvarvetna á landinu hafa ráðið menn og gert út skip og báta í þeirri von, að nauðsynleg tæki fengjust. Nú brestur salt, olíu og margt annað, og þessir menn standa ráðþrota. Þeirra vonbrigði eru margföld. — Nýlega barst í skeyti sú fregn, að útflutningur frá Bandaríkjum væri bannaður hingað. Það voru alþjóðar-vonbrigði. En hitt get jeg ekki kallað vonbrigði eða rangsleitni, þótt manni, sem hefir fasta ábúð á jörð, og jafnvel von um erfðaábúð á henni, sje neitað um kaup á henni.

Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að landssjóður er nú kominn í skuld, sem nemur miljónum, skuld, sem stafar af dýrtíðinni og enginn veit hve nær verður hægt að borga. Vel getur svo farið, að hann þurfi enn að bæta við þessi lán og fara á fremstu grös með lánstraust sitt. En ef einhvern tíma þyrfti á tryggingu að halda, þá hefir landsjóður ekki annað boðlegra en fasteignir.

Þeirri kenningu hefir töluvert verið hampað í seinni tíð, að peningar hafi ekki fallið í verði. Meðal annars hefir sú kenning komið fram í víðlesnu blaði hjer í Reykjavík, og þessi kenning á að rjettlæta þjóðjarðasölu á þessum tíma. Hana er reynt að sanna með því, að sama renta sje borguð af peningum eins og áður. En það liggur í hlutarins eðli, að peningar falla ekki í verði gagnvart sjálfum sjer; það á að bera þá saman við verð á vöru, fjenaði o. s. frv. Fáist minna af öðrum gæðum fyrir peningana en áður, þá hafa þeir fallið í verði.

Jeg hafði vænst þess, að hv. landbúnaðarn. legði til, jafnframt sölu þjóðjarða, að breytt yrði hinum forna matsmælikvarða. Nú er í raun og veru miklu betra að kaupa jörð en fyrir 7—8 árum, einmitt vegna þess, að verðmiðillinn er fallinn í verði að miklum mun. Mjer hefði virst það eðlileg afleiðing af þeim skoðanamun, sem komið hefir fram, að þessum gamla mælikvarða hefði verið gerbreytt, og fyrst þá haldið áfram að selja.