13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

143. mál, verðhækkunartollur

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg var því miður ekki við er umr. byrjaði, því að jeg þurfti að sinna öðru máli inni í hv. Ed. Jeg vil þá leyfa mjer að skýra frá, að stjórnin hefir afráðið að leggja þetta frv. fram í þeirri von, að þetta þing: sje sama sinnis og þingið 1915, því að hún álítur, að það sje í samræmi við vilja þess þings, að leggja þetta frv. fram. Verðhækkunartollslögin frá 1915 gilda til 17. sept., því að allflestar vörur eru undir venjulegum kringumstæðum komnar í kaupmannahendur um þetta leyti. Nú getur þessu seinkað vegna hafts á samgöngum og truflun, sem þingið 1915 hefir ekki gert ráð fyrir. Til að bæta úr þessu kemur því stjórnin með þetta frv., svo að tilgangur þingsins 1915 komi fram. Það er auðvitað, að engum dettur í hug að efast um tekjunauðsynina eða nauðsynina til að halda tekjunum við.

Eins og hv. deildarmenn muna var komið hjer fram frv. um að fella útflutningsgjaldið af ull, en það var felt í hv. Ed. Ullin ætti því að koma inn í þetta frv., en stjórnin slepti henni úr, er hún samdi þetta frv., því að þá var búið að samþykkja hitt frv. hjer í Nd. Nú er ullin komin til kaupmanna, og því sjálfsagt að taka hana inn í þetta frv. Svo vil jeg benda á, að breytt hefir verið fyrirkomulaginu á 2. gr., að því er snertir fisk, því að tollurinn af honum var reiknaður af 100 kg., en hjer af hverju skpd. eða 160 kg., því að það er þægilegra fyrir innheimtumennina. Svo vil jeg benda á annað, sem sje það, að grundvallarverðinu, sem lagt var 1915 um, hvað skyldi vera tollfrjálst, hefir verið breytt þannig, að skattfrjálsa verðið hefir hækkað að sama skapi og söluverðið samkvæmt breska samningnum hefir hækkað. Nú t. d. er skattfrjálst 103 kr. verð á kjöttunnuna, en var 73 kr.. Þetta er í fullu samræmi við það, sem þingið hugsaði sjer 1915, svo að það gjald, sem landssjóður fær, verður hið sama og áður, þrátt fyrir verðhækkunina. Þó vil jeg benda á, að ef reiknað væri gjaldið eftir meðalverði á kjöti, ætti skattfrjálsa upphæðin að vera svolítið lægri, svo að tollurinn er þá lægri en gert var ráð fyrir 1915. Það hefir áður verið talað um, að með þessu væri auðsjáanlega ekki verið að leggja skatt á tekjur. Það getur vel verið, en jeg vil benda á, að þótt þetta heiti verðhækkunartollur, gæti það eins vel heitið bara útflutningstollur. Þegar um tolla er að ræða, er ekki spurt um, hvort menn hafi hag af vörunni, sem tolluð er, því að menn verða að borga toll, hvort sem þeir græða eða skaðast á vörunni, og þetta mætti skoða sem hvern annan toll. Jeg verð að halda því fram, að landssjóður megi ekki missa þessar tekjur, og það er skylda þingsins að sjá um, að tekjur hans minki ekki. Ef þetta verður felt, verður að fá aðrar tekjur, því að landssjóður verður að geta borgað útgjöld sín. Jeg væri síst á móti því, þótt þetta frv. yrði felt, ef eitthvað sanngjarnara og betra kæmi í staðinn.

Jeg geri ráð fyrir, að frv. þessu verði vísað til nefndar, og enda þótt jeg viti, að hv. fjárhagsnefnd sje því ekki hlynt, tel jeg þó rjett að láta það ganga til hennar. Síðan hún tjáði sig um verðhækkunartollinn, hafa líka kringumstæðurnar breyst, svo að nú er enn meiri þörf á tekjum en áður. Jeg sje ekki annað en að nefndin ætti að geta fallist á þetta. Vil jeg svo loks minna á, að þetta frv. fer að eins fram á að framlengja verðhækkunartollinn fyrir þetta ár.