13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2456)

143. mál, verðhækkunartollur

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal fúslega taka á mig ábyrgðina á því, að þetta frv. er komið fram. Jeg lít svo á, að það sje ekki sanngjarnt, að það sje tilviljun ein, sem ræður því, hvort verðhækkunartollur kemur á vöru eða ekki, eftir því hvort hún er flutt út deginum fyr eða síðar. Aðalatriðið er það, að tollurinn komi nokkurn veginn jafnt niður á alla vöru, sem framleidd er á sama tíma. Jeg set það ekki fyrir mig, hvort gildi laganna er út runnið þann eða þann daginn, hvort heldur miðað er við lok september eða annan tíma, ef tollurinn fellur á allar vörur, sem framleiddar eru það árið. Jeg hygg alveg víst, að þótt tollurinn verði afnuminn áður en þessa árs afurðir eru fluttar úr landi, þá lendi hann því nær eingöngu hjá kaupmönnum. Þeir munu þegar hafa keypt mest af afurðum manna, svo að það hefir engin áhrif á það verð, sem almenningur fær fyrir vöru sína, hvort verðhækkunartollurinn verður afnuminn eða ekki. Kjötið er þó undan skilið þessu, enda fyndist mjer ekki ósanngjarnt, að það væri látið tollfrjálst. Jeg má segja, að það hefir þegar verið tollað einu sinni oftar en aðrar vörur, svo að tollur af því mætti falla niður að þessu sinni. Sjávarafurðir munu að mestu leyti þegar keyptar, svo að frv. þetta hefði engin áhrif á verðlag þeirra, þótt það yrði að lögum. Ullin er þegar flutt út og verður því tolluð hvort sem er. Mjer finst því ósanngjarnt, að sjávarafurðirnar einar sjeu undan skildar þessum litla tolli.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) tók sem dæmi, að síldarútvegurinn mundi verða nokkuð hart úti. En jeg veit ekki betur en að einmitt hjer í deildinni hafi komið fram frumvarp um sjerstaka tollhækkun á síld, og jeg hefi ekki orðið var við, að það hafi verið tekið aftur. Svo að ekki líta nú allir sömu augum á síldarútveginn. Jeg sje því ekki annað en að það hafi verið í alla staði sanngjarnt að koma fram með þetta frv., og getur deildin felt það, ef hún fellst ekki á það. Hún tekur þá á sig ábyrgðina, sem það hefir í för með sjer. Hins vegar get jeg strax lýst yfir því, að stjórnin mun varla geta gert hv. þm. Stranda. (M. P.) það til þægðar, að gera þetta mál að fráfararatriði. Það er ekki svo mikið stórmál í mínum augum, flutt aðallega til þess að koma á sanngjarnara hlutfalli milli afurðanna. Tekjuaukann, sem landssjóður mundi hafa af því, að frv. þetta yrði að lögum, get jeg látið mjer í ljettu rúmi liggja. Þó verð jeg að játa, að þingið hefir enn sem komið er ekki gert mikið að því að auka tekjur landssjóðs. Fyrsta tilraunin var stimpilgjaldið, sem mjer virtist háttv. deild byggja talsvert mikið traust á. Nú hefi jeg heyrt, að mjög tvísýnt sje, hvort það kemst gegnum efri deild, og þá er fyrsta stoðin fallin. Jeg skal játa það, að þetta er í raun og veru ekki svo mikilvægt atriði. Landið verður að sjálfsögðu að skulda, og það er ekki svo sjerlega varhugavert, ef það er ekki ofmikið. En mjer finst ástæðulaust að láta kaupmenn græða á því, að tollur þessi sje afnuminn.