13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

143. mál, verðhækkunartollur

Bjarni Jónsson:

Jeg held það hafi verið hæstv. forsætisráðherra (J. M.), sem vildi mæla frv. bót með því, að gróðinn lenti hjá kaupmönnunum, ef tollurinn væri ekki framlengdur. En það er nú ekki þægilegt að vita, hvar fiskur er staddur nú á þessari stundu. Sumir eru sennilega búnir að selja kaupmönnum fisk sinn; aðrir eiga ef til vill meira eða minna óselt. Það er því ekki gott að reikna út, hvar ranglætið kemur niður. Það gæti komið harðara niður á einum en öðrum, og þá stundum lent á óverðugum. Jeg held því, að tryggast sje að líta á það, hvað rjettlátt er í þessu máli sem öðru. Að öðru leyti er það ekki nema maklegt í alla staði, að kaupmenn gjaldi skatt af gróða sínum. En þetta er ekki rjettasta leiðin til þess, enda ber ekki fremur að borga af gróða á fiski heldur en af öðrum gróða. Þetta gjald á því ekki að leggja á með tolli, heldur með skatti af tekjum, eins og að er stefnt með öðru frv., sem liggur hjer fyrir deildinni. Ef það frv. kæmist í gegn, þá væri ekki neinn skaði skeður þótt kaupmenn slyppu við að borga toll af fiskinum. Hann kæmi þá fram á annan hátt

Eins og hv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók fram í ræðu sinni, sem kom víða við; og flutti meðal annars allmikið hrós um mig — það er ekki oft, sem það heyrist hjer í þingsalnum, en guð láti gott á vita — eins og hann tók fram, er hjer ekki um verðhækkunartoll að ræða, heldur um útflutningstoll. En jeg get aldrei skilið hvernig á þessum útflutningstolli stendur, sje ekki annað en að alt útflutningsgjald sje ranglátt og óeðlilegt. Er það refsigjald fyrir að vera svo duglegur að framleiða? Sumir geta selt alla framleiðslu sína í landinu, en aðrir verða að senda hana til útlanda, til að koma henni á markað. Útflutningsgjaldið nær því ekki nema til sumra framleiðenda. Þeir, sem eiga því láni að fagna að búa svo nálægt Reykjavík, að þeir geta sett smjör sitt og kjöt til neyslu þar, þurfa ekki að greiða útflutningsgjald, en þeir, sem búa fyrir norðan eða í öðrum landshlutum; sem fjær liggja, verða að selja vöru sína

til útflutnings og greiða toll, líklega sem refsingu fyrir það, að þeir hafa ekki lært að gera langar leiðir jafnstuttar og fljótfarnar, eins og þær, sem skemmri eru. Svona er með alla útflutningstolla. Þeir eru varla samboðnir siðaðri þjóð.

Það mun vera rjett, að tekjur landssjóðs þarf að auka. En þó má ekki leggja ofmikla áherslu á að útvega tekjur. Það er ekki svo hættulegt, þótt dálitlar skuldir safnist, meðan svona árar, að neinn skaði geti talist að því, þótt vanhugsaðar álögur falli niður. Þær einar álögur á að hugsa um að auka, sem koma rjettlátlega niður á gjaldþol manna. Þess vegna ber að leggja alúð við að koma á slíkum skatti sem tekjuskatti. Hvers vegna hefir stjórnin ekki lagt þess konar frv. fyrir þingið, þar sem skatturinn er látinn stíga eftir því sem tekjurnar hækka? Ekki þarf að deila um rjettlætið í skattalöggjöfinni, sem nú er. Tíu þúsunda og hundrað þúsunda maðurinn borga lítið eitt hærri skatt en sá, sem engar tekjur hefir fram yfir eðlilegan lífeyri. Í stað þess ætti skatturinn að hækka eftir mismunaröð eða öllu heldur kvótaröð, eftir því sem tekjurnar hækka. Það er leið til að auka tekjur landssjóðs, en ekki þessi útflutningstollur.

Og hverju er nú landsstjórnin tryggari, þótt frv. þetta verði samþykt, ef ekki verður hægt að flytja neitt af vörunum út, sem ekki er nú svo ólíklegt, að fyrir geti komið? Skúffur landssjóðs verða þá jafntómar eftir sem áður, og ekkert er unnið annað en bara það, að lengja lífið í þessum óburði, sem aldrei hefði átt að lifna, því síður að lifa lengi. Hitt get jeg fallist á, að þetta er ekki svo stórvægilegt atriði, að nokkur von sje til þess, að stjórnin sje svo typpilsinna, að hún geti farið að yfirgefa sinn hæga sess, þótt styttur sje ómagahálsinn á ekki burðugra afspringi en þetta er. Það er engin von, að stjórnin vilji taka á sig þann vanda, fyrir jafnlítinn árekstur og þetta, að fara að leita að mönnum, til að taka að sjer jafnvandasamt og óþakklátt verk sem það, er stjórnin hefir á hendi.