13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

143. mál, verðhækkunartollur

Fjármálaráðherra (B. K.):

Það hefir verið fundið að því í umræðunum, að stjórnin skuli ekki hafa komið fram með ný skattafrumvörp. Jeg vil benda á skýrslu mína um fjárhag landssjóðs, að þar stóðu á jöfnu tekjur og gjöld, nema ef telja skyldi lítinn tekjuafgang. Þinginu er og kunnugt um fjárlögin. Þar standa tekjur og gjöld líka í járnum. Stjórnin hafði því, eins og menn sjá af þessu, enga sjerstaka ástæðu til að koma fram með skattafrumvörp. Enda þurfti engra slíkra frv. með til vara, því að við höfðum að bakhjarli framlengingu á verðhækkunartollinum, sem ætla mátti að hrykki fyrir útgjaldaviðbótum, sem kynni að verða bætt við í fjárlögin í þinginu. En nú er útlit fyrir, eftir því sem jeg hefi heyrt, að tekjuhallinn verði meiri en búist var við. Þá var einmitt komin ástæða til að bera fram frv. það, sem nú er til umræðu.

Eins vildi jeg geta í sambandi við þetta. Stjórnin getur ekki farið að eins og heyrst hefir um þingmenn, að þeir skrifi frv. á knje sínu alveg óundirbúið. Það þarf tíma, til að undirbúa ný skattafrumv. svo, að í lagi sje. Stjórnin hefir ekki haft meiri tíma til undirbúnings málum undir þetta þing en frá því í febrúar og fram í mars. Stjórnin hefir því engan tíma haft til að útbúa víðtæk skattafrv. Jeg hefði ekki treyst mjer til þess með öðrum önnum, sem hvíldu á mjer. Jeg vona, að hv. deild afsaki, að stjórnin hefir ekki komið fram með slík frv., sem henni er nú, af sumum, legið á hálsi fyrir að hafa ekki komið með.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) fanst mjer í upphafi máls síns heldur vinveittur frv., þótt hann í niðurlaginu legði á móti því. Jeg vona, að þetta lagist alt milli okkar.

Frv. hv. þm. Dala. (B. J.) um skatt af gróða eða stríðsskatt, sem svo mætti kalla, kemur auðvitað til greina í þessu sambandi. En það þarf tíma til að útbúa það þannig, að það verði frambærilegt. Ef til vill tekst nefndinni það.

Annað ætlaði jeg ekki að segja.