13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2461)

143. mál, verðhækkunartollur

Gísli Sveinsson:

Jeg get ekki að því gert, að mjer finst þetta tiltæki stjórnarinnar, að koma nú með verðhækkunartollinn, eins konar sjónhverfingaleikur. Henni hefði átt að vera kunnugt, eftir umræðunum á þinginu og andsvörum fjárhagsnefndar, að það er ekki til neins að vera að burðast með þetta nú hjer inn á þingið. Það mun vera öllum ljóst, að þær breyttu kringumstæður, sem fjármálaráðherra (B. K.) nefndi, gera það að rjettu lagi enn fráleitara að koma nú með þetta mál en ef það hefði verið gert í byrjun þings.

Hæstv. stjórn hefir talað um, að ekki þurfi að kalla gjald þetta verðhækkunartoll; það gæti nefnst að eins tollur, ef menn vildu það heldur. Þetta er einungis gert í þeirri von, að það gangi þá betur í þingmenn. Stjórnin hlýtur að hafa athugað, að svona er útflutningsgjald ekki lagt á. Þegar um útflutningsgjald er að ræða, er miðað við alt annað.

Það er til lítils að deila um, hvort skyldan til að auka tekjur landssjóðs liggi hjá þingi eða stjórn, en til að byrja með má gera ráð fyrir, að stjórnin hafi það í huga á þessum tímum, þegar öll útgjöld fara fram úr því, sem áætlað er. Því að nú má ganga út frá því vísu, að útgjöldin aukist, en tekjurnar rýrni. Það er því óskiljanlegt, að hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) skuli leyfa sjer að segja, að það, hvernig hann hefir gengið frá fjárlögunum, og skýrsla hans um fjárhag landsins, afsaki, að ekki hefir landssjóði verið hugsað fyrir nægum tekjum. Það er mesta fjarstæða. Þótt stjórnin geri fjárlögin svo úr garði, að tekjur og gjöld virðist standast þar á, er útlitið ekki glæsilegra fyrir það, því að það hefir stjórninni tekist með því að draga úr útgjöldunum um skör fram, en áætla tekjurnar um of. Stjórnin mátti vita það, að gjöldin hlutu að vaxa fyrir nauðung. Stjórnin er þess vegna ámælisverð fyrir það, hve lítið hún hefir gert til að sjá landssjóði fyrir nægilegum tekjum. Hún ber annir fyrir sig. En ýmislegt hefði hún getað gert fyrir því. Hún gat t. d. komið fram með framlenging vörutollsins, sem hún ætlaði að koma á jafnvægi með og áætlaði í fjárlögum, fyr en nú að áliðnu þingi. Þetta hefði stjórnin því fremur átt að gera í tíma, þar sem búast mátti við, að hún væri betur skipuð nú en þegar ráðherrann var að eins einn. Það get jeg ekki tekið í alvöru, sem hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) sagði, að stjórnin hafi verið svo önnum kafin við undirbúning dýrtíðarfrumvarpsins, að hún hafi ekki mátt vera að því að sinna öðru. Eftir því, sem mjer skildist, átti hann við frv. um dýrtíðaruppbót til starfsmanna landsins. Það getur ekki náð nokkuri átt, að stjórnin hafi verið svona önnum kafin við að undirbúa frv., sem í öllum aðalatriðum er bygt á sama grundvelli sem lagður var á aukaþinginu í vetur. Önnur dýrtíðarfrumvörp, eða bjargráðafrumvörp fyrir almenning kom stjórnin ekki með, þótt hún hefði vissulega líka átt að hugsa fyrir því. — Ef nokkuð má segja um, hvar skyldan til að sjá landinu fyrir tekjum liggur, þá er það hjá landstjórninni.

Að lokum vil jeg gera tillögu um, að frv. verði vísað til bjargráðanefndar en ekki til fjárhagsnefndar. Fjárhagsnefnd hefir þegar svarað stjórninni því, að hún vilji ekki styðja að því, að frv. nái fram að ganga. Jeg hefi ekki breytt um skoðun á því, og sama held jeg um aðra samnefndarmenn mína. Það getur verið, að einhver önnur nefnd fáist til að fallast á frv. Vart er þá annari til að dreifa en bjargráðanefnd, ekki síst þar sem stjórnin sagði, að þetta væri nokkurs konar bjargráðatilraun.