13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

143. mál, verðhækkunartollur

Magnús Pjetursson:

Jeg skal ekki segja mörg orð. Það er búið að taka fram flest, sem jeg ætlaði mjer að segja.

Það var ekki mín eigin tillaga, að skattur þessi skyldi einungis kallaður tollur, en ekki verðhækkunartollur, heldur tók jeg það upp eftir hæstv. fjármálaráðherra (B. K.).

Jeg skal ekki blanda mjer í þær umræður nú, hvort ekki hefði verið þörf á því, að stjórnin bæri fram tekjuaukafrv. þegar í byrjun þings, og ekki heldur um hitt, hvernig fjárlögin voru úr garði gerð frá stjórninni. Það verður tækifæri til að minnast á það síðar, er fjárlögin koma. En þess vil jeg geta, út af því sem hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) sagði, að ekki hefði verið ástæða til fyrir stjórnina að leita tekjuauka, þar sem enginn halli var í fjárlagafrv. stjórnarinnar, að hún bar þó fram að minsta kosti eitt frv., sem veruleg útgjöld hafði í för með sjer fram yfir fjárlögin, sem sje frv. um dýrtíðaruppbótina. Það hefði ekki verið óþarfi, að stjórnin kæmi með einhver skattafrv. til að vega salt á móti því.

Annars hafa þeir hv. þm. Barð. (H. K.), þótt hann kæmist að furðulegri niðurstöðu, og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagt mest af því, sem jeg ætlaði að taka fram.