13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2465)

143. mál, verðhækkunartollur

Sveinn Ólafsson:

Mjer finst mótstöðumenn þessa frv. vera að berjast við skuggann sinn. Þeir tala eins og hjer sje um nýjan skatt að ræða. Mjer skilst, að hjer sje eingöngu verið að haga svo til, að verðhækkunarskatturinn, sem þingið 1915 setti, nái til allrar þeirrar vöru, sem ætlast var til, að hann næði til og hæpið er nú, að hann nái til. Samgönguvandræði valda því, að skatturinn nær ekki til sumrar vöru, sem honum var ætlað að ná til, nema tíminn verði framlengdur að því skapi, sem vörurnar flytjast nú seinna úr landi en áætlað var 1915. Vörurnar geta verið seldar kaupmönnum, en eigi komnar úr landi þegar lögin falla úr gildi og verða þá tollfrjálsar.

Hvað snertir þörf landsjóðs, þá blandast engum hugur um, að hún er ríkari nú en þegar skatturinn var lagður á. ,Hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að grundvöllurinn undan þessum tolli væri týndur. Það er ekki rjett. Aðalgrundvöllurinn er þörf landsjóðs, og hún er ekki síður rík nú en áður.

Jeg held ekki, að hjer verði um miklar tekjur að ræða og býst við, að jafnmikil þörf verði eftir sem áður að sjá landinu fyrir tekjum með öðru móti, t. d. eins og hv. þm. Dala.

(B. J.) hefir bent á, með tekjuskatti, sem mjer sýnist einna heppilegasta leiðin, og það er engin ástæða til að slá hendinni við þeim skatti, þótt þetta yrði samþykt. Ef aftur á móti þetta frv. væri felt, þá yrði árangurinn enginn annar en sá, að ágóðinn af þeim vörum, sem liggja hjer óútfluttar þegar fyrri lögin falla úr gildi, lendir í vasa kaupmanna.