03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

143. mál, verðhækkunartollur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Eftir að það frv. var fallið, sem nefndin bar fram um hækkun á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, tók hún til athugunar þetta frv., en komst að þeirri niðurstöðu, að hún sæi sjer ekki fært að leggja til, að það yrði samþykt. Nefndin hefir frá öndverðu látið uppi, að hún væri mótfallin þessum tolli, og reyndi hvað eftir annað að koma með frv. til að bæta úr þeim tekjumissi, sem stafa myndi af því, ef þetta frv. yrði ekki að lögum; en þótt misjafnlega hafi til tekist með þau frv., getur nefndin ekki samþykt þetta frv. Ástæðurnar fyrir því eru tilgreindar í nál., svo að jeg fer ekki um þær nema örfáum orðum. Það er í fyrsta lagi, að hjer er ekki um reglulegan verðhækkunartoll að ræða, því að framleiðslukostnaður hefir aukist svo mikið, en verðið ekki hækkað að sama skapi. Jeg skal geta þess til dæmis, að eftir frv. stjórnarinnar á gjaldfrjálsa verðið á hverri síldartunnu að vera 22 kr., en að hafa það svo lágt nær engri átt, því að nú kostar tunnan utan um síldina um 20 kr., og þar við bætist svo salt og allur framleiðslukostnaður, sem hefir hækkað gífurlega, sjerstaklega vegna kolaverðsins; Ef hjer ætti að vera um eiginlegan verðhækkunartoll að ræða, yrði að færa gjaldfrjálsa verðið stórkostlega upp, og minkar tollurinn auðvitað mjög og sömuleiðis við það hversu afskaplega framleiðsla hefir minkað, einkum til sjávarins, og þá sjerstaklega síldveiðin, en síldin var einmitt sú vörutegundin, sem langmestan verðhækkunartoll gaf. Það, sem þessi tollur því gæfi af sjer, yrði svo lítið, að landssjóðinn munaði nær engu, því að tilætlunin er að tolla að eins framleiðslu yfirstandandi árs. Um vörur þær, sem sjávarútvegurinn framleiðir, er það að segja, að daginn sem frv. um hækkun á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum var felt hjer í deildinni komu fram svo átakanlegir kveinstafir frá þeim mönnum, sem skoða sig sem fulltrúa fyrir þann atvinnuveg, sjerstaklega hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), þm.V.-Ísf. (M.Ó.) og 1. þm. Reykv. (J.B.), að fjárhagsnefndin misti alveg kjarkinn. Sje svo, að þessi atvinnuvegur standi svo höllum fæti, að hann þoli engar álögur, þá þolir hann engu fremur verðhækkunartoll en útflutningsgjald, ekki síst þar sem frv. hæstv. stjórnar fer fram á hærri álögur á hann en frv. okkar fór. Afleiðingin er sú, að þessir menn hljóta að vera á móti frv. og með nefndinni. Að vísu gægðist það fram hjá sumum þessara þm., að þeir hefðu getað verið með frv. nefndarinnar, ef það hefði líka farið fram á hækkun á skatti af landbúnaðinum. Jeg get ekki skilið þá afstöðu, því að ef það er rjett, að sjávarútvegurinn standi svo höllum fæti, að hann þoli engar nýjar álögur, þá bætir það ekkert úr, þótt lagðir væru líka skattar á landbúnaðinn. Nýr skattur á landbúnaðinn yrði þá að eins nokkurs konar sykurmoli upp í þessa hv. þm. Nefndin vildi ekki gefa þeim þennan sykurmola, því að hún vildi ekki fara með þá sem börn, og því fór sem fór. Jeg hefi getið þess áður, að tekjurnar, sem fengjust ef þetta frv. yrði að lögum, yrðu litlar, bæði af því, að færa yrði hámarkið á gjaldfrjálsa verðinu mikið upp, og af því, að framleiðslan er svo lítil í ár.

Þá er enn ein ástæðan sú, að erfitt yrði greina tollskyldu vörurnar frá hinum, sem ekki eru tollskyldar. Það yrði erfitt að greina framleiðslu ársins 1917 frá því, sem framleitt yrði eftir 1. jan. 1918. Hvernig á t. d. að þekkja í sundur fisk, sem veiddur er rjett fyrir nýárið, frá fiski, sem veiddur er rjett eftir það. Einn annmarkinn er sá, að engin trygging er fyrir því að öll framleiðsla ársins 1917 verði flutt út fyrir 1. júlí 1918, eftir því sem horfur eru nú, og þessu til stuðnings skal jeg benda á, að til eru nú í landinu tveggja eða þriggja ára gamlar afurðir, t. d. ull.

Færi svo, að háttv. deild geti ekki fallist á tillögur nefndarinnar, þá verður að vísa frv. til nefndar aftur, því að það þarf að endurskoða það og lagfæra.

Ef nokkur sanngirni á að vera í þessum tolli, og hann á ekki að vera beinn útflutningstollur, þá verður að hækka tollfrjálsa verðið að miklum mun. Líka verður að bæta inn í ull, því að hún hefir ekki verið tekin með. Sem sagt, nefndin leggur til mjög ákveðið, að frv. þetta verði felt.