28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Karl Einarsson:

Háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) gat þess, að vitnast hefði í samgöngumálanefndinni, að Þórhallur Daníelsson hefði beðið 10,000 kr. skaða af að halda uppi samgöngum við Hornafjörð.

Jeg gat þess í ræðu minni áðan, að Þórhallur hafi hlotið að leggja þennan samgöngukostnað á vörur sínar, og nú skal jeg leyfa mjer að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, verðskrá yfir helstu vörutegundir, sem kaupmaður þessi seldi sumarið 1916. Verðskrá þessi er gefin af honum sjálfum, og hljóðar þannig:

Rúgmjöl . . . pr. 100 kg. 37,00 kr.

Rúgur .... — — — 36,00 —

Rísgrjón ... — — — 54,00 —

Bankabygg . . — — — 52,00 —

Hafragrjón . . — — — 58,00 —

Hveiti nr. 1 . . — — — 54,00 —

Maísmjöl ... — — — 30,00 —

Hafrar .... — — — 32,00 —

Kaffi .... — 1 — 1,90 —

Export .... — — — 1,30 —

Melis, högginn . — — — 0,94 —

— í toppum. — — — 0,90 —

Melís, steyttur. . . pr. kg. 0,88 kr.

Kol pr. tonn 95,00 —

Salt — — 95,00 —

Steinolía kg. 0,46 tunnan . . 60,00 —

Sementstunnan 20,00 —

Ef vjer berum nú þetta verð saman við verð á sömu vörutegundum hjer sunnanlands á sama tíma, sjáum vjer, að verðið hjá Þórhalli er svo miklu hærra, að hann hefir hlotið að fá venjulegan verslunararð með þeirri verðhækkun, sem hann hefir lagt á vörurnar, og meira en það, flutningskostnaðinn líka. Sumar vörutegundir eru þriðjungi dýrari en þær voru þá hjer syðra.

Jeg get þess vegna ekki sjeð, að nokkur sanngirni mæli með því, að Þórhalli sje veittur þessi styrkur. Annars skal jeg ekki þrátta frekar um þetta mál. Ef háttv. deild sjer sjer fært að greiða þennan styrk, mun það verða gert.