03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

143. mál, verðhækkunartollur

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla ekki, að mikið þurfi að ræða þetta mál nú, við 2. umr. Stjórnin bar ekki frv. fram af því, að hún byggist við, að það næði fram að ganga. Undirtektir einstakra þingmanna voru þær, og eins við 1. umr. hjer í deildinni. Ekki er stjórnin heldur enn fallin frá því, að rjett sje að láta tollana hvíla sem mest á afurðunum. Það er ekki rjettur samanburður að bera þetta frv. saman við frv. um útflutningsgjald. Þau lög áttu að gilda um næstu tvö ár, en þessi að eins part úr ári. Þetta gjald, sem stjórnin vill leggja á, kemur langþyngst, eða því nær eingöngu, niður á kaupmönnum. Mikið af framleiðslu þessa árs er nú keypt, áður en menn vissu nokkuð um, að verðhækkunartollurinn yrði framlengdur. T. d. mun nú mestallur fiskur vera seldur, og það allháu verði, þar sem engin fyrirstaða mun hafa verið á að fá 165 kr. fyrir skpd., eða jafnvel 170 kr. Obbinn af fiskinum hefir verið seldur viðstöðulaust fyrir þetta verð.

Það getur vel verið, að þetta frv. gefi ekki fjarska miklar tekjur. En jeg skil ekki í því, að nefndin skyldi ekki reyna að breyta frv. svo, að við því mætti líta og það gæti komið að einhverju leyti í stað útflutningsgjaldsfrv., þegar búið var að fella það. Vilji háttv. deild ekki hafa þennan toll, þá verður hún að ráða því. En stjórninni blandast ekki hugur um, að misrjetti kemur upp við það, að lögin falla úr gildi í miðjum september, og landssjóður tapar tekjum, sem engin ástæða er til að hann tapi. Þessi tvö atriði, sem háttv. framsögumaður (M. G.) nefndi, er auðvelt að laga með brtt., jafnvel án nefndar.