03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

143. mál, verðhækkunartollur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Hæstv. forsætisráðh. gat þess, að þessi lög ættu að eins að gilda part úr ári, en útflutningsgjaldsfrv., ef samþ. hefði verið, í tvö ár. Þetta er alveg rjett, og það var einmitt einn af kostum þess, að það átti að gilda um lengri tíma, því að heldur er von um, að einhver bót kunni að ráðast á í framtíðinni, en engin von um bót á þessu ári. Þá gat hæstv. forsætisráðh. um það, að misrjetti kæmi fram, ef lögin fjellu úr gildi núna. Þetta er að sönnu rjett, en hið sama kemur fram á hvaða tíma sem slík lög falla úr gildi. Það verður altaf undarlegt, að fiskur, sem veiddur er fyrir kl. 12 einhverja nótt, skuli vera tollskyldur, en sá, sem veiðist eftir kl. 12 sömu nótt, sje tollfrjáls. En fyrir þetta verður ekki synt. Það kemur fram hve nær sem lögin falla úr gildi.