03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2472)

143. mál, verðhækkunartollur

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg held að þetta álit hv. frsm. (M, G.) stafi af því, að hann þekki ekki eins vel til sjávarútvegs eins og til landbúnaðar. Afurðir hvers árs koma að mestu leyti sem heild út af fyrir sig, en renna lítið saman við afurðir næsta árs. Um áramótin er venjulega mjög lítið um aflabrögð. Jeg skal ekki segja, að ekki hefði eins mátt tilnefna einhvern annan tíma, t. d. 1. des. Það hefði komið í sama stað niður, því að í desember aflast mjög lítið. Útgerðin er venjulega að mestu leyti úti í septemberlok, svo að það, sem kemur til mála hjer, er það, sem veiðist í síðari hluta þessa mánaðar. Það getur vel verið, að ekki sje víst, að allar afurðir þessa árs verði fluttar út fyrir 1. júlí 1918. En það er þó að minsta kosti meira rjettlæti í þessu ákvæði heldur en í því, að láta verðhækkunartollinn falla umsvifalaust niður nú í miðjum september. Það er ekkert rjettlæti í því að tolla síld, sem veidd er í júlí og ágúst og flutt út í byrjun september, en það, sem flutt er út síðar í mánuðinum, skuli vera tollfrjálst. — Stjórnin kom með þetta frv. af því, að henni þótti það rjett og sjálfsagt, til að draga úr því misrjetti, sem verður svo átakanlegt við það, að tollurinn fellur niður á þessum tíma. Og ef það kæmi fyrir, að mjög hátt verð fengist fyrir afurðirnar, þá gæti svo farið, að það yrði fyllilega rjettmætt að leggja tollinn á. Það gæti viljað til, að úr rættist, þótt ekki sje það mjög líklegt. — Svo skal jeg ekki tefja þessar umr. meira. Jeg veit, að það þýðir ekkert. Menn munu allir vera ráðnir í því, hvað þeir vilja við frv. gera.