10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

143. mál, verðhækkunartollur

Pjetur Jónsson:

Lög þau, er hjer liggja nú fyrir, fengu, þegar í byrjun, mjög misjafna dóma. Þó voru þau samþykt á sínum tíma með miklum meiri hluta, eftir að menn höfðu fundið leið til samkomulags. Þar sem eg þekki til, úti um land, hafa menn yfirleitt hallast að því, að leiðin hafi yerið sanngjörn og rjettmæt, enda var hjer þá ekki önnur leið til, sem hitti gróða framleiðenda við áhrif stríðsins eins vel og þessi. Nú er aftur á móti nokkuð öðru máli að gegna. Gjaldstofninn er breyttur frá 1915. Þá var auðsær hagnaður í garði framleiðenda, jafnt bænda sem sjávarútvegsmanna, en nú verður ekki annað sjeð en að halli verði hjá mjög mörgum, svo að fjárhagsnefnd var tæplega láandi, þótt hún vildi ekki halda uppi þessum lögum lengur.

Jeg var í fyrstu á svipaðri skoðun, en þegar jeg fór að hugleiða málið rækilega, eftir að frv. kom fram, komst jeg að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að framlengja lögin þannig, að þau næðu jafnt til allra, en gjaldið yrði sem allra ljettast, á meðan þessi truflun atvinnuveganna stendur. Þó að menn beri sig nú illa, og þótt einhver skaði verði á útgerð og búskap, þá eru þó framleiðendur skárst settir allra sem stendur, og yfirleitt eru það þessar stjettir, sem lengst munu lifa af sjer þetta harðæri.

Þá er og óheppilegt, að lögin hverfi úr sögunni á miðju útflutningstímabilinu á þessu ári. Og það mun hafa verið aðaltilgangur stjórnarinnar, er hún flutti frv., að lögin næðu yfir alla framleiðsluna 1917 og giltu til 1. júlí 1918. — En til þess nú að lögin geti staðið til næsta reglulega þings, þá kom mjer og nokkrum fleiri hv. þm. saman um að koma með tillögu um að framlengja þau árinu lengur.

Svo framarlega sem aukaþing verður haldið næsta ár, eins og líkur virðast benda til, þá er hægast að breyta lögunum eða afnema þau, eftir því sem þykir haganlegast. En okkur flutnm. till. þykir heppilegt að láta þau lifa þangað til. Þess vegna höfum við komið með þessa uppástungu, að þau næðu til 1. júlí 1919, en þó þannig, að tollurinn næði ekki til annarar framleiðslu en fyrir árið 1918. — Þá skal jeg með örfáum orðum snúa mjer að einstökum brtt. — Okkur fanst ekki ástæða til að gera breytingar við 2. gr., nema í einstaka atriði. Fyrsta breyting er við 2. lið. Um hana er ekkert að segja. Að eins þótti okkur það lögulegri tala að setja 110 fyrir 111. Aftur á móti má segja um breytingarnar við 4. og 7. lið, að það gerðum við til þess að koma á samræmi, móts við aðrar fiskitegundir, svo sem þorsk í 1. flokki. Þá er næst viðvíkjandi síldinni. Við vorum á einu máli um það, að rjettast væri að ljetta tollinum, nálega öllum, af henni vegna margra orsaka. Bæði hefir síldarafli verið óvenju tregur í sumar, og annað þó enn verra, en það er hinn gríðarlegi kostnaður við salt, ílát og kol, svo að allir útgerðarmenn hafa skaðast á síldveiðum síðastliðið ár. Okkur fanst því ekki vera á það bætandi, með því að leggja skatt á í ofanálag. Enda verður gjaldið, eftir okkar till., ekki nema 18 aurar á hverja tunnu, miðað við breska verðlagið. Það er því að eins til að halda þessu við að nafninu til. — Um brtt. við smjörið er ekki neitt að segja. Við færðum það upp að eins til að koma því í samræmi við annað. Eins og menn vita er ekki flutt neitt smjör út nú. — Hvað snertir gærurnar, þá miðaði jeg þessa hækkun þess gjaldfrjálsa verðs að nokkru leyti við það verð, sem jeg geri ráð fyrir að fáist fyrir þær nú. En eins og kunnugt er kostar nú mikið að salta gærur, þar sem salt hefir stigið afskaplega í verði. Gjaldfrjálsa verðið hefir verið áður l kr. á hvert kg., og var það fulllágt í samanburði við salt o. fl. Þetta er ekki heldur nema í samræmi við hækkunina á fiskinum. Aftur er það má ske fullhátt, saman borið við kjötið. Það hefði ef til vill verið ástæða til að færa hið gjaldfrjálsa kjötverð dálítið upp. En því miður er ekki útlit fyrir, að kjöt seljist vel á næstu tímum. Svo að okkur fanst ekki taka því að koma með brtt. í þá átt. Það hefir lengi vel verið svo, að saltfisksskipundið og kjöttunnan hjeldust í hendur. En nú hefir kostnaður við fiskverkun hækkað meir en á kjöti. En þó vil jeg geta þess, að hækkunin á kjötkostnaðinum hefir verið mikil líka, alt að 15—20 kr. á tunnu, síðan í fyrra. — Þá kemur brtt. um að taka ullina með. Með hana höfum við farið í hlutfalli við annað. Við höfum miðað verðið við það verð, sem ull nú hefir selsl fyrir, annars vegar, og gert ráð fyrir, að framleiðslukostnaður á henni hækkaði talsvert, eins og allur búskaparkostnaður hefir farið sí hækkandi. En sjerstök hækkun, þar fram yfir, er ekki tilfinnanleg, eins og á sjávarafurðum.

— Um hestana hefi jeg farið eftir till. hv. 1. þm. Árn. (S. S.). Hún liggur hjer fyrir, og jeg býst við, að hann mæli með henni. Á þeim er tollfrjálst verð má ske full lágt. Ef lítið flytst út af hestum, þá má búast við góðu verði, og framleiðslukostnaður hesta er minni en annars gjaldeyris, svo að ekki þarf að kvarta um útflutningsgjald á þeim, ef til kemur. En annars bendir alt útlit á, að hestar verði ekki fluttir út í ár. Og tekur þá ekki til þess tolls, því miður. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. En vildi þó að endingu drepa á brtt. hv. 1. þm. Árn. (S. S.). Jeg vona að hann taki þær aftur, sem lúta að því, að fella niður einstaka liði á frumvarpinu. Því svo framarlega sem á að framlengja tollinn á annað borð, þá finst mjer rjettast að láta það ná til alls, sem áður var. Mjer finst það varla sómasamlegt fyrir fyrir oss bændur, að vera að skorast undan þessu óverulega gjaldi. Víð megum ekki vera með neinn meting á milli atvinnuveganna, heldur hjálpast að, sem best við getum, að bera uppi það, sem á oss legst.