10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

143. mál, verðhækkunartollur

Björn Kristjánsson:

Það var óheppilegt að engin úr stjórninni skyldi vera hjer viðstaddur, til að láta í ljós álit sitt um brtt. á þgskj. 800. Þó hygg jeg að mjer sje óhætt að segja, eftir því sem jeg þekki hug stjórnarinnar, að hún mundi fallast á þær. Sumar þeirra eru að vísu þýðingarlitlir, eins og t. d. um smjörið, sem gerir hvorki til nje frá. En aftur eru aðrar til talsverðra bóta, svo að jeg fyrir mitt leyti legg til, að þær verði samþyktar. Hvað snertir þessa lengingu laganna, að þau sjeu látin gilda til 1919, staðinn fyrir 1918, þá læt jeg það mig litlu skifta. En hins vegar sje jeg ekkert, sem mælir móti því, að svo verði, því landssjóður hefir mikla þörf fyrir tekjur, eins og menn vita. En aftur tel jeg að brtt. á þgskj. 780, frá hv. 1. þm. Árn. (S. S.), sjeu ekki til neinna bóta, og þessvegna sje rjett, að fella þær, ef hann á annað borð vill ekki taka þær aftur. En jeg mæli eindregið með því að brtt. á þgskj. 800 verði samþyktar.