10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2481)

143. mál, verðhækkunartollur

Hákon Kristófersson:

Það eru að eins örfá orð, sem jeg vildi mega segja um þetta mál.

Það kann að þykja undarlegt, að jeg fylgdi því, að mál þetta gengi til 3. umr., þar sem jeg gerði engan ágreining í fjárhagsnefndinni, en meiri hluti hennar lagði til, að frumvarpið færi ekki til 3. umræðu, er hún tók afstöðu sína til málsins. Jeg skal lýsa því yfir, að jeg get ekki skilið, hvers vegna fjárhagsnefnd getur nú verið móti málinu í heild sinni, eins og það nú er orðið, með þeim brtt., er fyrir liggja, þar sem hún hafði ekki lýst sig algerlega mótfallna skatti þessum, heldur að eins viljað láta hann koma niður á sjávarafurðum. Jeg hafði lýst yfir því í fjárhagsnefndinni, að jeg teldi tæplega sanngjarnt, að landbúnaðarafurðir væri með öllu undan þegnar tollinum, þótt mjer væri það ekkert kappsmál. Leit jeg svo á, að slíkt væri bæði rjettlátara, og mundi mælast betur fyrir. Jeg get nú ekki sjeð, að með þeim breytingum, er fyrir liggja á frv., sje hægt að slá því fram, að með því sje nokkur verulegur skattur lagður á landbúnaðinn. En jeg vil undirstrika það, sem kom fram í fjárhagsnefndinni, að með tilliti til hækkaðs lausafjárskatts hefir landbúnaðurinn orðið fyrir mjög verulegri skattaaukningu í samanburði við sjávarútveginn, en tel það þó ekki svo mikið atriði, að hann væri algerlega undanfeldur þessum skatti, ef 100% væri lagt á sjávarafurðir fram yfir það, sem er. Þykist því vel geta rjettlætt það fyrir samvisku minni, og þykist ekki bregðast hv. fjárhagsnefnd, þótt jeg samþykki frv. þetta með brtt. á þgskj. 800.

Brtt. á þgskj. 780 virðast fram komnar af góðum hug, en þó býst jeg við, að jeg geti síðar fylgt þeim. Vil þó taka það fram, að skatt eins og þann, sem hjer er um að ræða, tel jeg hrein og bein vandræði að verða að notast við, nema aðeins til bráðabirgða, vegna vöntunar á tekjum í landssjóðinn.