09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2485)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg álít ekki, að þörf sje á að tala langt mál að þessu sinni. Jeg vona að háttvirt deild leyfi frumvarpinu að ganga til nefndar, og gefst þá nefndinni tækifæri til að athuga það.

Dýrtíðin er orðin afskapleg. Hún hefir aukist svo 3—4 síðustu mánuðina, að þeim, sem hafa lág laun eða lítil efni, er lítt kleift að afla hins bráðnauðsynlegasta. Svo kemur fleira til, sem eykur vandræðin. Atvinna hefir verið rýr frá því í vetur, þegar sjávarútvegurinn stöðvaðist. Til sveita hefir dýrtíðarinnar orðið vart, þótt ekki sje hún þar jafn tilfinnanleg og í kaupstöðum. Það gæti verið, að menn kæmust af í kaupstöðunum, ef atvinna væri næg; en að líkindum verður atvinnuleysið alment. Mest er atvinnan nú um hásumarið, en þegar vetrar og veðrátta hamlar framkvæmdum, mun hún minka að stórum mun. Má þá búast við almennu atvinnuleysi. En vöruverð er svo hátt, að þótt atvinna sje sæmileg geta menn eigi aflað nema hins allra nauðsynlegasta.

Það sem fyrir mjer vakir er að koma í veg fyrir, að almenningur líði neyð; en það verður eigi gert á annan hátt en að landssjóður hlaupi undir bagga. Ef atvinnubrestur verður er bæjarfjelögunum ómögulegt að hjálpa öllum; það er til einkis að treysta, að þau forði mönnum frá hungri. Þingið má ekki skiljast án þess að hafa gert einhverjar ráðstafanir til að hjálpa almenningi. Jeg geri ráð fyrir, þó að þetta frumvarp verði samþykt, að þingið geri einhverjar ráðstafanir til þess að byrjað verði á fyrirtækjum, sem menn geti haft atvinnu af, því þó að landssjóður greiði þá verðhækkun, sem kann að verða fram yfir það vöruverð, sem ákveðið er í frumvarpinu, þá getur almenningur ekki bjargast, nema hann hafi mikla atvinnu.

Aðrar þjóðir, sem dýrtíðarinnar hafa orðið varar fyr en við, hafa tekið upp þetta ráð, að greiða ákveðinn hluta verðhækkunar á nauðsynjum. Jeg skal ekki um það segja hvað háttvirtu Alþingi finst ráðlegt í þessu efni. Ef háttvirt Alþingi gæti sjeð aðrar leiðir hagkvæmari, gæti jeg með glöðu geði fallist á þær. Mjer dettur ekki í hug að halda því fram, að mínar tillögur sjeu endilega þær bestu, sem hægt er að gera í þessu máli, en jeg hygg, að þær stefni í rjetta átt, og ef eitthvað verður gert, sem jeg vona, verði það bygt á sama eða líkum grundvelli.

Finnist mönnum heppilegra, að landstjórnin stofni til einhvers fyrirtækis til að sjá mönnum fyrir atvinnu þá kæmi í sama stað niður, hvort kaupgjald yrði haft svo hátt, að menn gætu aflað sjer allrar nauðsynjavöru, eða verðhækkun á nauðsynjavörum yrði goldin eins og ætlast er til í þessu frumvarpi, en kaupið þá öllu minna. En jafnframt yrði að hafa í huga, að margir gætu ekki notið atvinnu þeirrar, sem landstjórnin sæi fyrir, og mætti ekki svo við þetta mál skiljast, að þeim væri ekki sjeð farborða. Mjer dylst ekki að svo framarlega sem landsjórnin ræðst í að veita hjálp gengur töluvert fje til þess; án þess væri ekki hægt að bjarga miklum hluta alþýðu. En þótt að ilt sje að stofna til skulda er jeg ekki í vafa um, að það er álitlegra en að láta þúsundir manna búa við neyðarkjör; slík neyð mundi draga úr þreki og þrótt hinnar uppvaxandi kynslóðar.

Jeg drep á þessi atriði nú til þess að háttvirt deild viti, hvað fyrir mjer vakir með þessu frumvarpi. Jeg tel eigi þörf að nefna fleira, en vona að deildin leyfi að frumvarpið gangi til bjargráðanefndar, og geri jeg tillögu um það.