09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Bjarni Jónsson:

Það er alveg rjett, sem að síðasti ræðumaður (Sv.Ó.) sagði, að þessu máli hefði átt að sinna miklu fyr, og hefði hv. þm. ekki legið svo mjög á, að komast heim af aukaþinginu í vetur, hefði þá mátt taka til íhugunar líkt frv., er þá var borið fram, og líkar tillögur og þær, er síðasti ræðumaður bar fram, að láta fólk fara úr bæjum upp í sveit til vinnu, svo að bændur gætu fært frá ám sínum og notað þá innlendu björg, er landsmenn hafa ætíð kunnað að hagnýta sjer, er aðflutningar teptust. En það er rjett, að nú er þetta of seint, og eins og jeg ætla, að jeg hafi áður sagt hjer í þessari hv. deild, hefði jeg sent 5 þúsundir manna upp í sveit að sjá við hallæri, ef jeg hefði verið einvaldur hjer á landi í vor.

Jeg hefi sagt áður, að það væri rjett, að búast við hinu illa, hið góða skaðaði ekki. Jeg ætlaði ekki að flytja langa ræðu. En jeg vildi einungis þakka hv. flm. (J. B.), að hann vill nú reyna að blása lífi í það frv., sem hann og aðrir hv. þm. hjálpuðust til að drepa fyrir mjer á aukaþinginu í vetur.

Að eins vil jeg reyna að skýra fyrir mönnum, hvað jeg hugsaði með tillögum mínum í vetur, og hvað jeg hugsa nú, er jeg vil styðja þetta frv. Jeg hugsa svo, þegar verð á útlendri og innlendri nauðsynjavöru er orðið svo hátt fyrir þurrabúðarmanninn, að hann getur ekki dregið fram lífið, þrátt fyrir afarmikla kauphækkun, eru hugsanlegir tveir vegir. Annar er sá, að sveitar- eða bæjarsjóðir veiti honum styrk til lífsviðurværis, en hinn er sá, að sveitarfjelagið ábyrgðist það, sem hann þyrfti. Niðurstaðan yrði ætíð sú, að þeir mörgu menn, sem gætu ekki borgað, færu á hreppinn, og gæti enginn borgað, færi allur hreppurinn „á hreppinn“. Landssjóður tæki þá við uppetnum búum, og þá yrði erfiðara um lán, er lánardrotnar vissu, að bústofn væri fallinn.

Því er hitt meiri fyrirhyggja nú, meðan atvinnuvegir standa upprjettum fótum, að taka nú lán til að hjálpa mönnum að bera hallærið. Engum manni með fullu viti dettur nú í hug að leggja á landsmenn stóra skatta, til tekjuauka landssjóði. Eini vegurinn er, að landið taki lán á svipaðan hátt og herlán ófriðarþjóðanna. Það er lán til að fullnægja nauðsynlegum kröfum til stríðs og varnar. Slíkt lán bæri þó ekki að skoða sem gjald í næstu fjárlögum, heldur ætti það að borga á löngum tíma, 25—30 árum, eins og stríðslánin. Það er margvíslegt, sem er gerandisk á þessum tímum, og sú kynslóð, sem þessir óvenjulegu tímar hafa skollið yfir, á ekki að bera það ein, heldur og sú komandi kynslóð, sem vjer höfum bjargað með því að falla ekki sjálfir úr hungri. Hún hefði aldrei orðið til, ef vjer yrðum hordauða fyrir varfærni sakir. Þetta er mín hugsun. Jeg tel, að eigi þyrfti að lögákveða fyrirfram, hve mikið landssjóður skuli greiða, heldur gefa stjórninni heimild til að gjalda uppbót eftir verðlagi og kaupgjaldi, samkvæmt reikningum þar til settrar nefndar manna af öllum stjettum. Landssjóður tæki þá við, er gjaldþol manna væri að þrotum komið. Með þessu móti yrðu útgjöld landssjóðs ekki eins tilfinnanleg og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sýndi eftir frv. Þau gætu því lækkað frá þeirri hlið, en hækkað frá annari hlið, sem sje, að ekkert yrði ákveðið um, að menn með svo og svo háum launum og svo og svo fáum ómögum skuli ekki verða aðnjótandi uppbótarinnar. Það er svo vandasamt að finna tekjur manna og gjaldmegin, að það mundi kosta eins mikið og að láta uppbótina ná til allra. Mjer mundi ekki detta í hug, að undan skilja mann, þótt hann væri margfaldur miljónamaður. Þeir, sem fengist hafa við seðlaútbýtinguna í þessum bæ, þekkja, hve erfitt er að haga slíkum hlutum. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um málið. Væntanlega verður því vísað til nefndar, og þá sennilega til mentamálanefndar. Raunar á það heima í bjargráðanefnd, en jeg geri ráð fyrir, að þessi hv. deild taki ekki upp á því að vísa máli til þeirrar nefndar, er það að rjettu á heima í. Jeg ætla svo að enda ræðu mína með því að þakka hv. flm. (J. B.), að hann hefir tekið upp hugmynd þá, sem hann hjálpaði til að drepa, meðan tími var til að koma henni í framkvæmd.