20.08.1917
Neðri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2494)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Jónsson):

Þegar gert er út um þetta mál, þá er það nauðsynlegt, að menn geri sjer ljóst, hvernig hagað skuli þeim bjargráðum, sem eiga að koma í veg fyrir, að menn verði í nauðum staddir, vegna afleiðinga dýrtíðarinnar. Sú leið, sem meiri hluti bjargráðanefndar hefir virst heppilegust og komið sjer saman um, er í fám orðum þessi, að koma því þannig fyrir, að sem flestir geti orðið sjálfum sjer nógir og lifað styrklaust. Þetta álítur meiri hlutinn að best sje framkvæmanlegt á þann hátt, að landið sjái mönnum fyrir atvinnu, eftir mætti, þeim sem enga hafa eða ekki næga, og enn fremur, að það jafnvel veiti mönnum lán til að koma einhverju því í framkvæmd, er hefði aukna atvinnu í för með sjer.

Hugsunin hjá meiri hlutanum er sú, að það sje skylda þingsins að gera alt sem hægt er til þess, að það fje, sem landið leggur fram til að hjálpa mönnum, verði ekki eins og hvert annað tapað eyðslufje, heldur fje, sem ávaxtar sig. Og leiðin til þess er einmitt sú, sem hjer er gert ráð fyrir að farin verði, að fje verði varið í nytsöm fyrirtæki, sem veita atvinnu, sem menn geta lifað af. — Jeg hefi athugað nákvæmlega þær 3 leiðir, sem komið hafa fram í þessu máli, og niðurstaða mín er sú, að leiðin, sem meiri hluti vill fara, verði sú hagkvæmasta, og sú, sem borgar sig best. Um leið og landið sjer fyrir mönnum, með því að veita þeim atvinnu, þá fær það endurgoldið það fje, sem það hefir lagt fram. — Hin leiðin, sem hv. minni hluti vill fara, styrkleiðin, er hvergi nærri eins heppileg. Því að þessi vöruafsláttur, sem hjer er talað um, kemur öllum til góða, jafnt þeim, sem þurfa, og hinum, sem ekki þurfa. Jeg býst við, að minni hluti geri þetta til þess að gera þeim, sem styrk þurfa, enga minkun, eða láta það ekki líta svo út, sem að hjer væri um sveitarstyrk að ræða. — Það kæmi mjer ekki á óvart, þegar þessum orðum mínum verður svarað, að þá kveði við sami sónninn og þegar verið var að tala um dýrtíðaruppbótina. — Ef maður athugar nákvæmlega till. minni hluta í þessu máli, þá dylst engum, að eftir ákvæðum hans munu þeir einnig verða styrktir, sem ekki þurfa. Það má að vísu vel vera, að sumir, sem verða þess aðnjótandi, verji þeim styrk vel. En það verður líka að taka tillit til þess, að landssjóður er engin ótæmandi mjólkurkýr. Auk þess yrði þessi hjálp hvergi nærri nóg þeim, sem verst eru staddir, og þá ekki heldur þessi afsláttur á nauðsynjavöru. — Jeg skal svo með örfáum orðum minnast á frv. háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um dýrtíðarstyrk. Eins og við var að búast af honum taldi hann það taka hinum frv. fram og vera það, sem væri best hugsað. Jeg get ekki láð honum, þó að hann líti svo á sjálfur, en býst samt ekki við, að fleiri líti svo á. Við þetta frv. er þá fyrst það að athuga, að hann telur víst, að þeir, sem myndu fá lán hjá landssjóði, myndu fúsir á að endurgreiða þau svo fljótt sem þeir gætu. Jeg býst satt að segja við, að hvorki hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) eða aðrir myndu láta sjer svo ant um það. Jeg geri ráð fyrir, að það mundi litið á þennan styrk líkt og aðra styrki, sem veittir eru hjer á Alþingi.

— Það er enn fremur mjög hætt við, ef þetta frv. nær fram að ganga, og ef það yrði venja að biðja um styrk, að þá mundu fleiri verða til þess en þeir, sem þyrftu, því að eftir frv. er öllum gert mögulegt að fá þennan styrk, ef þeir aðeins fá meðmæli hjá hlutaðeigandi sveitarstjórn. Og mjer er fullkomlega kunnugt um það, að víða í sveitum úti um land er því þannig farið, að hver sveit vill fá sem mesta peninga til sín, eins og eðlilegt er, og mundi því ekki hika við að gefa sem flestum sínum mönnum meðmæli, sem svo landstjórnin er skyldug að sinna samkvæmt frv. — Það gæti líka verið bagalegt, ef svo færi, sem hæglega getur orðið, að einhver vanrækti að senda styrkbeiðni fyr en í síðustu forvöð, og gæti þá dregist lengi áður en hún væri tekin til greina. En aftur hinir, sem hefðu verið nógu forsjálir, sætu að sínum styrk, meðan hinir má ske liðu neyð. Þessir gallar á frv. hv. þm. eru svo auðsæir, að ganga fjarstæðu næst, og gerist ekki þörf að rökræða það frekar. — Þá mintist hv. þm.V.-Sk. (G. Sv.) enn fremur á það, að sveitarfjelög þyrftu ekki að fá þessa heimild, sem meiri hluti vill gefa, til lántöku hjá landssjóði; þau gætu alveg eins farið í bankann. Þar til er því að svara, og liggur opið fyrir, að ekki eru bankarnir skyldugir til að sinna öllum lánbeiðnum, er þeir fá; þeir geta beinlínis sagt, að þeir sjái sjer ekki fært að lána meira. Og í hvaða hús er þá að venda fyrir sveitarfjelögin ? Hv. þm. V. Sk. (G. Sv.) ljet í ljós mikla hræðslu við það, að ef frv. meiri hluta yrði samþ. þá mundi fje landssjóðs verða misbrúkað. En hann er ekki hræddur um, að eins gæti farið ef hans eigið frv. yrði að lögum, þótt öllum öðrum sje auðsýnilegt að svo yrði. — Að endingu vil jeg benda á það, að jeg ber engan kvíðboga fyrir því, að sveitarfjelögin fari að taka stærra lán en þau geta komist af með, þar sem gert er ráð fyrir, að þau endurborgi það strax og þeim er unt. — Þó fyndist mjer rjett, að til mála gæti komið seinna meir, að landssjóður gæfi eitthvað eftir af þessum lánum, ef sjerstakar ástæður eru fyrir hendi.

Bjargráðanefndin lagði áherslu á að fá menn til að vinna að framleiðslu í landinu, að svo miklu leyti, sem mögulegt er. En þá tíma ársins, sem ekki er hægt að vinna að framleiðslu, þá verði mönnum útveguð önnur atvinna. Þetta var það, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) virtist athugaverðast við frv. meiri hlutans. Þá talaði hann um það, hvílíkt glapræði og óráð það væri að fara að leggja í slík fyrirtæki, er útlent efni væri svo dýrt og ilt að ná því. Hjer er farið utan við það, sem meiri hlutinn hefir ætlast til. Meiri hlutinn hefir ætlast til þess, að landssjóður rjeðist í þau ein fyrirtæki, er lítið útlent efni þyrfti til, fyr en þá seinna. Það stendur víst í till. meiri hlutans, að veita skuli atvinnu við að undirbúa byggingar og stórhýsi, brúargerðir, hafnargerðir og vegagerðir. Með þessu er ekki sagt, að draga þurfi að útlent efni, svo sem járn og sement, heldur vinna að þessum fyrirtækjum að svo miklu leyti sem íslenskt efni nægir. Um vegagerðir í stórum stíl er það að segja, að þótt landssjóður rjeðist í þær, þarf ekki mikið útlent efni til þeirra. Þar sem stórar brýr þarf á vegum gætu þær vel beðið. Því er þetta atriði hjá hv. þm. V.-Sk. ekki rjettmæt mótbára.

Jeg býst nú ekki við að fjölyrða meir að sinni, því að jeg hygg það svo ljóst, hverja leið skuli fara í þessu máli. Það er skylda þingsins að kasta ekki fje í þá, er ekki þurfa, eða þannig, að það verði alt eyðslufje, heldur reyna, ef hægt er, að fá eitthvað fyrir snúð sinn, eins og t. d. vinnu. Þingið ber og skylda til að sjá þeim fyrir nægum styrk, er ekki geta lifað án hjálpar. Það ber öllum saman um. Eins og jeg hefi bent á, verður þetta ekki gert með till. minni hlutans og ekki heldur með till. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), því að þá fá þeir einir hjálpina, er geta komið sjer nógu vel við sveitar- og bæjarstjórnir.