20.08.1917
Neðri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2498)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Frsm. meiri hl. (Þorst. J.):

Hv. frsm. minni hluta (B. J.) og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafa enn á ný viljað hrekja röksemdir meiri hluta í þessu máli. Frsm. minni hl. (B. J.) kvað stjórnina eftir frv. minni hl. hafa sömu heimild til að lána mönnum fje sem eftir frv. meiri hluta. Þetta er ekki rjett; hjer er mikill munur á. Eftir tillögu meiri hlutans er stjórnin skyldug til að veita lán þetta til 10 ára; en eftir núgildandi lögum eru engin slík ákvæði til. Hann kvað sveitarfjelög ekki heldur mundu skorta lánstraust hjá bönkum. Hv. þm. (B. J) ber hjer höfðinu við steininn, og vill ekki sannfærast um, að svo geti farið fyrir einstökum sveitarfjelögum, að lánstraust þeirra hjá bönkunum þrjóti; og ekki virðist hv. þm. (B. J.) heldur vilja fallast á það, að það sje eðlismunur á því, hvort landsstjórnin veitir lánið eða bankar. Hv. þm. (B. J.) gengur líka alveg fram hjá þeirri hugsun minni og þykir hún ekki umtalsverð, er jeg segi, að vel geti komið til mála síðar meir að gefa eitthvað eftir af lánunum. Þá fann hv. þm. (B. J.) að því, að það, sem ógreitt væri af lánum þessum eftir 10 ár eftir að stríðinu er lokið, skyldi teljast sem sveitarstyrkur. Við gerðum ráð fyrir, að á svo löngum tíma mundu flestir hafa fengið ráð til að losast við skuldir þessar, og varla aðrir eiga þær þá ógreiddar en þeir, sem hvort sem var mundu hafa orðið að þiggja sveitarstyrk einhvern tíma á tímabilinu; og fengi mín hugmynd framgang, að eigi væri loku skotið fyrir einhverja eftirgjöf, þá mundi það varla koma fyrir, að nokkrum þeim yrði reiknað þetta lán sem sveitarstyrkur, sem annars hefði ekki orðið að þiggja af sveit.

Þá talaði hv. þm. (B. J.) um, að svo langan tíma þyrfti til að koma lánveitingunni í kring, eftir tillögum meiri hlutans, að hjálpin kæmi ofseint, og að lengur þurfi eftir henni að bíða eftir frv. meiri hlutans en frv. minni hlutans; það væri ekki hægt að fara að gera neinn undirbúning fyr en lögin væru búin að fá staðfestingu.

En þetta sama gildir og um frv. minni hlutans, og jeg skil ekki í, að það geti haft nokkurn forgangsrjett til að geta orðið staðfest fyr en hitt; og sje hægt að fara að byrja á undirbúningi undir eins og þingið hefir afgreitt frv. minni hlutans sem lög, þá gildir alveg hið sama um frv. meiri hlutans. Hv. þm. (B. J.) taldi það kost við frv. minni hlutans, að verðlækkunin ætti að ná til allra; en jeg hefi þegar áður tekið það fram, að þetta verður aldrei nema kák. Ef hv. minni hluti vill veita svo mikinn styrk öllum, að þeir fái nóg, sem minst þurfa, en þó, að allir landsmenn fengju jafnmikið, þá myndi þurfa að margfalda miljónirnar, er hv. minni hluti vill veita til afsláttar á vörum. Þá mundi svo langt frá, að 2 miljónir nægðu, að efasamt er, hvort 20 miljónir mundu til hrökkva, því að ekki kæmu nema um 220 kr. á mann, ef allir ættu að fá jafnt.

Það er engin nýung hjer í deildinni, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sje drjúgur af frv. sínum, hvort sem þau hafa við nokkur rök að styðjast eða engin. Það er heldur engin nýung, þótt hann vaði elginn um mál, er hann virðist bera lítið skynbragð á.

Hann var svo óheppinn, að hann var ekki kosinn í bjargráðanefndina og gat því ekki orðið framsögumaður hennar, hvorki meiri hluta nje minni hluta. En til þess að fara ekki algerlega varhluta af framsögu bjargráðamálanna, hefir hann verið svo ráðagóður, að búa til frv. sitt um dýrtíðarstyrk.

Það var ekki rjett haft eftir mjer, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að jeg hafi dróttað því að sveitarstjórnunum, að þær mundu gefa falsvottorð. Það er vandi að gefa slík vottorð sem þessi, og má búast við, að sveitarstjórnir gefi heldur sveitungum vottorð en að eiga það á hættu að gera mönnum, sem þeim væri í alla staði vel við, rangt til. (G. Sv.: Kattaryfirklór!). Þingmaðurinn ætti að vera svo vanur kattaryfirklóri hjá sjálfum sjer, að hann sæi, að þetta er rjett hjá mjer, en ekkert yfirklór. Það er ilt við þá menn að eiga, sem aldrei sansast á rjett mál, þegar þeim hefir orðið á að bera fram einhverja vitleysu. En svo hefir þm. V.-Sk.(G. Sv.) farið í þessu máli. Hann hefir áður haldið því fram, að sveitarstjórnir myndu misbrúka vald sitt, ef frv. meiri hluta bjargráðanefndar yrði samþykt. Traust hans á sveitarstjórnunum hefir verið eitthvað minna en það er nú, þegar hann hjelt þessu fram.

Annars munu deildarmenn sýna við atkvæðagreiðsluna, hvað þeim finst rjettlátt, og er það von mín, að það frv. verði samþykt, sem yrði landsmönnum og landssjóði til mestra heilla.