20.08.1917
Neðri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2499)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Björn Stefánsson:

Jeg mun verða því meðmæltur, að öll þessi frv. fái að ganga til 2. umr., og þó get jeg engu þeirra fylgt óbreyttu til hlítar.

Fyrst skal jeg nefna frv. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Það finst mjer afaróaðgengilegt, að landssjóður greiði alt að helmingi þeirrar verðhækkunar, sem orðið hefir af völdum stríðsins. Jeg hygg, að reikningar manna um það, hve mikið þeir hafa brúkað af allri nauðsynjavöru síðan stríðið hófst, sjeu ekki í svo góðu lagi eða vel geymdir, að þeir megi teljast öruggur grundvöllur til að byggja dýrtíðaruppbót á. (J. B.: Misskilningur). Eftir frv. er ekki ætlast til, að greidd sje verðhækkun á allri nauðsynjavöru. Ýmsum vörutegundum er slept. Jeg skal t. d. nefna sykur. Hefir minni hluta nefndarinnar líklega þótt óviðfeldið að telja sykurinn með, úr því að búið var að fella frv. um lækkun á sykurtollinum. Enda hefði það verið eðlilegasta aðferðin til að greiða nokkurn hluta verðhækkunar á sykri, að lækka tollinn.

Þá tel jeg það ófært í frv. meiri hlutans, að lán, sem veitt verði einstökum mönnum vegna dýrtíðarinnar, skuli teljast sveitarstyrkur, ef þau eru ekki endurgreidd að fullu innan 10 ára. Jeg býst við að margur maðurinn, sem nú þarf á dýrtíðarstyrk að halda, geti verið orðinn heilsubilaður eftir 10 ár. Hins vegar er það alkunna, að margir fátækari manna, sem eru þó duglegir og atorkusamir, vinna sjer sjaldnast svo mikið inn, að það geri meira en hrökkva til brýnustu nauðsynja. Það er ekkert að lasta þá, þótt þeir þyrftu styrks nú á þessum voðatímum, en væri aftur mjög ómannúðlegt að svifta þá almennum mannrjettindum 1927, þótt þeir hafi notið styrks 1917, þar sem svona alveg sjerstaklega stendur á.

Í 1. gr. meiri hluta frumvarpsins er talað um lán, en renta hvergi nefnd á nafn. Líklega ætlast hv. meiri hluti til, að engin renta sje greidd af þessum lánum, en það þyrfti helst að taka það fram í sjálfu frv. Heppilegra væri líka að setja eitthvert hámark um þau lán, sem sveitarstjórnum er heimilað að taka úr landssjóði. Mætti miða hámarkið við eitthvert krónutal á hvert nef.

Það tel jeg alveg rjett, sem ætlast er til í frv. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að dýrtíðarstyrkurinn sje ekki afturkræfur hjá lánþega. Hitt tel jeg óráðlegt að gefa sveitarstjórnum ótakmarkaðan ávísunarrjett á landssjóð, nema einhver kvöð væri sett á sveitarstjórnir um endurgreiðslu síðar meir, að einhverju eða öllu leyti, því að búast má við, að miklu fleiri myndu leita þessara lána en þeir, sem annars þægju sveitarstyrk. Sveitarstjórnir gætu einnig mjög mikið notað þetta til að hlífa sjer við styrkveitingum til þurfalinga sinna, og gætu jafnvel notað það til að koma fótum undir ýmsa hreppsbúa, sem erfitt eiga, á landssjóðs kostnað. Því tel jeg mjög varasamt að hafa þær ábyrgðarlausar. Hve mikið þetta myndi kosta landssjóð er ekki hægt að segja, en jeg hygg, að það færi mikið fram úr áætlunum hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.).

Yfirleitt geðjast mjer best að frv. meiri hluta nefndarinnar, en er ekki ánægður með það, nema á því verði gerðar nokkrar breytingar.