23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg hafði ætlað mjer að gera almennar athugasemdir um fjárlögin við 1. umr., en tíminn leið og svo var orðið framorðið, að jeg vildi ekki tefja svefn manna, og geymdi mjer það því þangað til nú. Jeg vil því biðja hæstv. forseta að virða mjer á hægra veg, þótt jeg haldi mjer ekki nákvæmlega við fyrirmæli þingskapanna.

Jeg skal þá minnast fyrst örfáum orðum á brtt. fjárhagsnefndar. Þær eru á fylstu rökum bygðar; fellst jeg því á þær. Að stjórnin áætlaði tekjurnar svona hátt, kemur til af því, að það leit mikið öðru vísi út í febrúarmánuði en nú. En auðvitað er það, að eins og nefndin segir þá er ekki á þessum tímum hægt að gera neina ábyggilega áætlun. Háttv. fjárhagsnefnd hefir nú tekið vitagjaldsfrumvarp sitt aftur, svo að jeg skal ekki tala um það að sinni. Aftur má geta þess, að talsverðar líkur munu vera fyrir því, að tóbakstollurinn gangi ekki óbreyttur í gegn um Ed., en það er ekki þessari nefnd að kenna, svo að ekki skal jeg heldur eyða að því fleiri orðum. Sömuleiðis vil jeg geta þess, í sambandi við seinasta liðinn, að jeg man ekki til, að neitt hafi legið fyrir stjórninni um það atriði. Loks skal jeg geta þess, að um tekjurnar af silfurbergsnámunni er það að segja, að sú upphæð var sett alveg út í bláinn. — Eins og jeg hefi tekið fram finnast mjer tillögur háttv. fjárhagsnefndar skynsamlegar, og sje jeg því ekki ástæðu til að fjölyrða um þær frekara.

Jeg kem þá næst að gjaldahliðinni. Jeg skal taka það fram undir eins, að háttv. fjárveitinganefnd lítur mjög öðrum augum á fjárlögin en stjórnin. Stjórnin vildi fara mjög varlega með fjárveitingar úr landssjóði, og alls ekki blanda dýrtíðarmálunum inn í þær. Það var aðalatriðið fyrir stjórninni að halda landssjóðsstarfseminni gangandi, þannig að þær landssjóðsstofnanir, sem nauðsynlegar eru, sjerstaklega þær, sem styðja atvinnuvegina, gætu haldið áfram hindrunarlaust. Allar þær fjárgreiðslur, sem stjórnin taldi ekki bráðnauðsynlegar, vildi hún takmarka sem mest, og dýrtíðarráðstafanir vildi stjórnin alveg leggja á vald þingsins, og taka þá lán, til þess að standast þann kostnað, sem af þeim leiðir, án þess að þær snertu fjárlögin. Nefndin hefir aftur á móti tekið mikið tillit til dýrtíðarráðstafana, og er það einkum það, sem áhrif hefir á útkomuna í fjárlögunum. Við þessu er í sjálfu sjer ekkert að segja. Þetta er stefnumunurinn á milli stjórnarráðsins og fjárveitinganefndarinnar, en þessi stefnumunur rjettlætir ekki ummæli nefndarinnar um fjárlagafrumvarp stjórnarinnar, um að það villi sýn og geri yfirlitið yfir fjárhaginn örðugra. Háttv. fjárveitinganefnd verður líka að hafa það hugfast, að nú er hægara að áætla tekjur og gjöld landssjóðs heldur en var í febrúar síðastliðinn vetur, þegar fjárlagafrv. var samið. Við þetta bætist einnig það, að sumar hækkanir hv. fjárveitinganefndar virðast stafa af ókunnugleika, sem kemur til af því, að nefndin hefir ekki viljað hafa nema sem minsta samvinnu við stjórnina, þótt henni hafi vitanlega staðið það til boða. Af þessu flýtur það, að ýmislegt hækkar samkvæmt tillögum fjárveitinganefndar, sem áður hafði verið samið um, og mun jeg skýra þetta nánar, er jeg kem að þeim liðum, sem jeg á sjerstaklega við. Það er auðvitað, að menn fara það, sem þeir komast lengst, til að ná í fje úr landssjóði. Þess vegna ríður á, að fjárveitinganefndin og stjórnin vinni saman í fullu samræmi.

Jeg skal svo minnast á hinar ýmsu brtt. nefndarinnar og byrja þá á þeirri fyrstu, um að hækka laun hagstofustjórans. Við þessa breytingu hefi jeg ekkert að athuga. Hún er gerð í samráði við stjórnina.

Þá er næsta brtt., um að hækka húsaleiguna fyrir hagstofuna og eldivið til hennar upp í 1800 kr. Eftir því, sem út leit í febrúar í vetur, bjóst stjórnin við, að nóg væri að veita 1000 kr. til þessa, en mikið hefir nú breyst síðan, og getur verið, að þörf sje að hækka fjárveitinguna eitthvað. Annars átti að útvega hagstofunni annað húsnæði. Átti að setja hana í bankarústirnar eða gamla pósthúsið, en bæði þessi hús á landið sjálft, og þess vegna var fjárveitingin ekki sett hærra. Er þetta eitt dæmi upp á það sem jeg gat um áðan, að sneiða mætti hjá, ef nóg hefði verið um samvinnu milli stjórnarinnar og fjárveitinganefndarinnar.

Þá kem jeg að 4. tölulið í brtt. nefndarinnar. Það er þingkostnaðurinn, sem nefndin vill færa upp í 160 þús. Við þessu er ekkert að segja annað en það, að eðlilegt er, að nefndin viti þetta betur heldur en stjórnin vissi í febrúar í vetur; þá var ekki búið að koma sjer niður á aukaþingshaldi að ári.

Þá er 5. brtt. nefndarinnar, um að hækka laun endurskoðenda landsreikninganna. Stjórnin hefir ekkert við þetta að athuga, en vill að eins benda á, að ekki er langt síðan þessi laun voru hækkuð.

Þá er 6. till. nefndarinnar sú, að feld sje fjárveitingin, sem sett var inn í frv. stjórnarinnar, um 10 þús. kr. til eftirlits vegna bannlaganna. Þessi fjárupphæð var sett á frv. vegna þess, að stjórninni var kunnugt um, að síðastliðinn vetur höfðu nokkrir menn í þessum bæ önglað saman nokkurri fjárupphæð, í því skyni að vernda bannlögin. Stjórninni þótti nú rjettara að ljetta þessu af einstökum mönnum, enda taldi hún líklegt, að þingið mundi fallast á þetta, einkum þar sem reynsla er fengin fyrir því, að þessa eftirlits er þörf. Í staðinn fyrir þennan lið vill nefndin hækka fjárveitinguna til óvissra útgjalda, í því skyni að auka almenna löggæslu. Jeg skal ekkert fara út í það, hvor stefnan sje rjettari, en deildin sker úr því máli.

Þá hefir nefndin tekið inn í fjárlögin væntanleg útgjöld til fasteignamats, og fært þá ástæðu fyrir, að taka eigi alt með, sem búast má við, að verði greitt á fjárhagstímabilinu.

Þetta er alveg ný stefna, og er jeg henni ekki mótfallinn.. Jeg átti tal við skrifstofustjórann um þennan væntanlega kostnað, og sagði hann, að það væri ekki venja að setja slíkt í fjárlög. Jeg segi þetta að eins til að afsaka stjórnina, því að jeg álít holt og gott, að önnur venja væri tekin upp. Enda hefi jeg tekið ýmislegt upp í fjárlögin, sem áður hefir verið utan þeirra, t. d. tillagið til Landsbankans o. fl. En auðvitað er það, að fasteignamatskostnaðurinn er hjer áætlaður af handahófi.

Nefndin leggur til, að feldur sje burt styrkurinn til læknishjálpar í Kjósarhreppi, enda sparast við það 300 kr. hvort árið. Eðlilegt, að nefndin hafi þó viljað finna einhverja leið til sparnaðar. Fyrir nokkrum árum var þar læknissetur, en svo var læknirinn fluttur þaðan alla leið til Hafnarfjarðar. Er því eðlilegt, að Kjósarmönnum hafi brugðið við. Og eins og kunnugt er er hjeraðslæknirinn, sem verður að sækja alla leið til Hafnarfjarðar, stór maður og þungur, og því bæði örðugt og kostnaðarsamt að flytja hann, enda vilja Kjóshreppingar oftast heldur vinna til að sækja prívatlækni til Rvíkur, þótt kostnaðarsamara sje. Sú hefir líka orðið raunin á, að menn draga venjulega oflengi að sækja lækni, einmitt kostnaðarins vegna.

Nýjum lið hefir verið bætt inn, um að veita samskonar styrk Flateyjarhreppsbúum í Þingeyjarsýslu. Jeg er ókunnugur á þeim stöðvum, og skal ekkert um þann styrk segja, en hann er sjálfsagt jafnsjálfsagður. Jeg skal heldur ekkert segja um augnlæknis- eða Röntgentsáhaldastyrkinn.

Þá kem jeg að spítölunum. Jeg ætla mjer að tala um þá yfirleitt, en ekki einstakar upphæðir. Nefndin hefir áætlað styrkinn til þeirra stórum hærri en stjórnin. Er stjórnin í sambandi við það ásökuð um að hafa áætlað nauðsynleg útgjöld oflágt. Jeg skal strax geta þess, að ástandið hefir töluvert breyst síðan í febrúar. Þá var það almenn von og trú, að stríðið mundi enda í sumar. Það var nákvæmlega athugað af fleiri ráðherrunum en mjer, hvað áætla skyldi spítalaútgjöldin. Læknar spítalanna gerðu og sínar tillögur, en sögðu, sem rjett var, að þær væru gerðar alveg út í loftið; reyndin gæti auðveldlega orðið alt önnur.

Mesta þýðingu hefir kolaverðið. Í febrúar í vetur, alt fram að 14. mars, kostuðu kolin 86 kr. tonnið. Þá virtist ekki ósennilegt að áætla kolaverð 1918 til 1919 50—60 kr. tonnið. Það er því ekki ástæða til að saka stjórnina um það, að hún hafi dregið úr áætluðum útgjöldum til spítalanna, til að geta skilað fjárlögunum tekjuhallalausum. Þessar áætlanir geta eðlilega reynst bæði rjettar og rangar. Því hefði fjárveitinganefndin átt að gera brtt., sínar með sama formála og fjárhagsnefnd, sem sje þeim, að vel geti orðið, að áætlanir stjórnarinnar reynist rjettari. Þessum útgjöldum er svo farið, að þau verða greidd, hvort sem þau reynast há eða lág. Það gerði því ekki mikið til, þótt nokkur skekkja reyndist í áætlunum um þau.

Til sjúkraskýla á læknissetrum hafði stjórnin áætlað 6 þús. kr., en nefndin hækkar þann styrk upp í 15 þús. Jeg veit ekki um afstöðu stjórnarinaar í heild sinni til þessarar hækkunar, en geri ráð fyrir, að hún vilji láta sína upphæð standa. Það virðist ekki ástæða til að veita hærri styrk til byggingar nú en á friðarárum.

Um tölusetningarkostnaðinn, hækkunina, er mjer ókunnugt, vissi ekki, að hennar þyrfti með, er fjárlögin voru samin. Jeg geri ráð fyrir, að nefndin áætli hann sanngjarnlega.

Styrkinn til utanferða hjeraðslækna hafði stjórnin áætlað hærri en áður, en jeg sje ekki ástæðu til, að hann verði hækkaður upp úr 2500 kr., eins og nú árar.

Enn fremur vill nefndin veita Guðmundi Thoroddsen 2000 kr. styrk. Mig minnir, að jeg hafi sjeð í blöðunum, að hann sje búinn að fá embætti í Kaupmannahöfn. Jeg veit ekki, hvort þetta er rjett, en ef svo er, þá virðist engin ástæða til að veita honum styrk.

Þá er styrkur til Láru Sigurðardóttur. Jeg þekki ekki konuna, en það ríður á, að landið hafi á að skipa góðum hjúkrunarkonum, þegar landsspítalinn verður reistur. Þennan styrk er því sjálfsagt að veita, ef stúlkan er efnileg.

Þá kemur að póstmálunum. Þegar stjórnin var að semja fjárlögin, fjekk hún tillögur frá póstmeistara. Þær hafa líka legið fyrir nefndinni. Stjórnin áleit sjer ekki fært að fara lengra en hún fór. Hún var hrædd við, að þingið vildi ekki samþykkja þær hækkunartill., sem hún bar fram, því að hingað til hefir fjárlaganefndin jafnan verið mjög spör á launahækkanir. Jeg skýrði póstmeistara frá því, hve langt stjórnin hefði sjeð sjer fært að fara, og fjekk það svar, að hann og starfsmennirnir mundu sætta sig við till. stjórnarinnar, ef þeir fengju líka dýrtíðaruppbót. Þetta hefði nefndin þurft að vita. Það er ekki svo, að jeg álíti laun póstþjóna ofhá, þvert á móti. Jeg vildi bara skýra frá því, hvernig á því stendur, að stjórnin fór ekki lengra en hún fór.

Jeg vil taka það fram, af því að jeg hefi ekki borið mig saman við meðstjórnendur mína, að það, sem jeg segi, segi jeg eingöngu fyrir eigin reikning.

Þá kem jeg að skrifstofukostnaði landsverkfræðings. Þegar svo var komið, að ekki var útlit fyrir, að stjórnin gæti útvegað nema tvo verkfræðinga í þjónustu landsins, þá fjellst hún á að hækka laun landsverkfræðingsins upp í 4 þús. kr. Landsverkfræðingurinn ljet það í ljós við stjórnina, að hægt væri líka að komast af með tvo, ef skrifstofukostnaðurinn væri hækkaður. Stjórnin spurði hann, hve mikið hann þyrfti, og hann svaraði 1500 kr. Nú hefir hann farið til fjárveitinganefndar og sagst þurfa 2000 kr. Við fjárveitinganefndina hefir hann farið fram á meira en við stjórnina. Þetta sýnir, eitt meðal annars, samvinnuskortinn milli nefndarinnar og stjórnarinnar. Hefði nefndin oftar átt að leita upplýsinga til hennar.

Þá er jeg kominn að vegamálunum.

Vegamálastjórinn hafði lýst yfir því við stjórnina, að ekki þyrfti nema 20 þús. og 14 þúsund til viðhalds flutningabrauta. En nú hefir hann sagt við fjárveitinganefnd, að hann þyrfti meira. Þetta er enn fremur að kenna samvinnuleysinu milli nefndarinnar og stjórnarinnar. Jeg held, að áætlun stjórnarinnar eigi að haldast.

Ekki hafði stjórninni dottið í hug að veita fje til brúar á Jökulsá á Sólheimasandi. Á fyrsta þinginu, sem á þá brú var minst, benti jeg á, að brú, sem kostaði um 10 þús. kr., myndi jafngóð fyrir þá, sem yfir ána eiga að fara, eins og brú, sem kostaði 78 þús. kr. Áin er eins og Markarfljót. Hún breiðir sig út yfir stórt svæði í hlaupum, og breytir þá oft farvegi. Brúin gæti því í áratugi staðið þar, sem vatn kæmi aldrei nálægt. Mjer virðist ekki viðlit að brúa annað en aðalána, sem er ekki stór. Þar vill svo vel til á einum stað, að það er stór steinn í miðjum álnum. Þar er því auðvelt að brúa. Það er nægilegt fyrir fólk, sem þarna ferðast, ef þessi áll er brúaður. Ef gerðar væru nýjar athuganir og nýjar áætlanir af nýjum verkfræðingi, skyldi það vera mitt fyrsta verk að greiða atkvæði með brúargerðinni. Því að það eru fáar ár, sem jeg hefi farið yfir, sem meiri þörf er á að brúa. En jeg vil ekki, að farið sje út í neina vitleysu. (B. J.: Þetta er veitt bara til undirbúnings). Ef það er álitið nægja að byggja brú fyrir 10 þús. kr., þá er einkennilegt að veita 25 þús. kr. til undirbúnings verkinu. Á fyrsta þinginu, þegar þetta mál var flutt, bauð jeg flutnm. að greiða atkvæði með 10 þús. kr. fjárveitingu, og það boð skal standa enn. (G. Sv.: Þetta er út í loftið). Til þess að koma í veg fyrir, að nokkuð verði gert út í loftið, þarf einmitt að láta athuga verkið af nýjum mönnum. Jeg bar þessa hugmynd mína undir einn merkasta mann í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann fjellst alveg á hana og sagði, að þeir myndu vera búnir að fá brúna, ef eftir þessu hefði verið farið.

Ef háttv. deild vill ekki flytja allar dýrtíðarráðstafanir inn í fjárlögin, þá

mun hún halda sjer við tillögur stjórnarinnar um vegamálin. Á friðarárum hefði þótt mikið að veita 18 þús. kr. til akfærra sýsluvega, en nú vill nefndin veita 25 þús. kr. Nefndin getur haft hvaða skoðun sem hún vill um þetta, en jeg álít það ótækt. Svo skal jeg ekki orðlengja meir um þennan kafla.

Til verkfróðs aðstoðarmanns vitamálastjórans vill nefndin veita 3 þús. kr., en stjórnin hafði áætlað 2500 kr. Jeg held, að rjettara væri að láta slíkar hækkunartillögur fara um hendur stjórnarinnar. Vel getur verið ástæða til þessarar hækkunar, en stjórninni er ekki kunnugt um það. Stjórninni hefir engin launahækkunarumsókn borist. Annars held jeg, að nefndin hafi verið altof rífleg á fje til skrifstofuhalds yfirleitt. Stjórnin hafði í till. sínum farið eins langt og hún sá sjer fært.

Um einstakar tillögur ætla jeg ekki að eyða mörgum orðum. Að eins vil jeg minnast á tillögu háttv. samgöngumálanefndar um að fella niður styrkinn til smærri báta, er gangi innfjarða. Þörfin fyrir þá er þó ekki minni en áður. Það er ekki við að búast, að stærri flóabátar geti verið að tefja sig á því að krækja inn eftir löngum og mjóum fjörðum, eða koma við þar, sem eru hálfgerðar hafnleysur; það myndi reynast óráð og tiltölulega ofdýrt að láta slíka báta koma við á þessum stöðum eins víða og oft eins og þörf krefur. Hitt er ódýrara og hagkvæmara að hafa til þess smærri báta. Verð jeg því að ráða frá því, að styrkur þessi sje afnuminn.