20.08.1917
Neðri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2502)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Það hittist illa á, að allir, sem nú tala í röð, skuli vera öðrum megin. Enginn meiri hluta maður hefir nú vaðið fram á vígvöllinn til þess að sýna, hvað rjett sje í þeim ágreiningsmálum, sem nú er rætt um. Þeir tveir háttv. þm., sem á undan mjer hafa talað, hafa hrakið alt, sem meiri hlutinn hefir haft á borð að bera. Reyndar hefir ekkert þurft að hrekja því að af hálfu meiri hl. hefir þetta ekki verið annað en þeim líkur Pílatatusar-handaþvottur, sem ekki er orðum að eyðandi. Jeg stóð að eins upp til þess að benda mönnum á það, áður en til atkvæða er gengið, hverjir það eru, sem bera ábyrgðina á gerðum þingsins í þessu máli. Það eru hvorki embættismenn nje Reykvíkingar, heldur nær eingöngu bændur. Þeir hafa stundum verið með bríxl á hendur okkur um það, að við vildum ekkert gera til þjóðþrifa. Nú eru það þeir sjálfir, sem ekki vilja að neitt sje gert, og ábyrgðin hvílir því á þeim, meiri hluta bjargráðanefndar, og þeim, sem fylgja þeim að máli.